Innlent

Ölvunarónæði og hávaði í miðborginni

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Lögregla er almennt sýnileg um helgar í miðbænum. Hún sinnti nokkrum erindum í miðborginni í gær sem flest snerust um ölvun og læti.
Lögregla er almennt sýnileg um helgar í miðbænum. Hún sinnti nokkrum erindum í miðborginni í gær sem flest snerust um ölvun og læti. Vísir/Kolbeinn Tumi

Næturvaktin hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu hefur oft verið erilsamari ef marka má fréttaskeyti lögreglu til fjölmiðla í morgun. Vestan Elliðaár var það aðallega í miðborginni sem lögregla sinnti erindum.

Þannig segir í skeytinu að óskað hafi verið eftir aðstoð lögreglu vegna aðila í annarlegu ástandi í miðborginni. Sá hafi brugðist ókvæða við afskiptum lögreglu, streist á móti handtöku og bitið lögreglumann. Maðurinn var vistaður í fangaklefa.

Til viðbótar voru nokkrar tilkynningar um ölvunarónæði og hávaða í miðborginni en töluverður fjöldi sækir miðborgina heim á fimmtudagskvöldum.

Þá var tilkynnt um grunsamlegar mannaferðir þar sem óviðkomandi aðilar höfðu klifrað upp á vinnupalla við fjölbýlishús áður en þeir létu sig skyndilega hverfa, að sögn lögreglu.

Í Hafnarfirði, Garðabæ og Álftanesi bar hæst að ökumaður var stöðvaður grunaður um akstur undir áhrifum. Honum var sleppt að lokinni sýnatöku.

Ekkert fréttnæmt gerðist á vaktinni hjá lögreglunni í Kópavogi og Breiðholti. Sömu sögu er að segja í Grafarvogi, Árbæ og Mosfellsbæ, samkvæmt skeyti lögreglu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×