Við gerum okkur flest grein fyrir því að það hvað við birtum á samfélagsmiðlunum skiptir máli.
Til dæmis getur þetta skipt mjög miklu máli þegar að við erum í atvinnuleit.
En það getur líka skipt máli þegar að við erum í starfi.
Í umfjöllun á BBC Worklife kemur til dæmis fram að það getur virkað neikvætt á vinnuveitendur og viðskiptavini ef þú birtir mjög oft myndir og stöðufærslur á Facebook. Fólk fer einfaldlega að velta því fyrir sér hvort tíminn sem fer í samfélagsmiðlana sé ekki of mikill og taki fókusinn frá vinnu og þeim verkefnum sem þar eru.
Í umfjöllun á Business Insider er því einfaldlega haldið fram að í einhverjum tilvikum geti vinnuveitendur velt því fyrir sér hvort þú sért á of góðum launum miðað við það sem sést á samfélagsmiðlunum. Eða rétta manneskjan í starfið?
Þá segir í umfjöllun á Forbes frá því hvernig vinnuveitendur hafa unnið dómsmál í Bandaríkjunum með því einu að vísa til myndbirtinga á Facebook. Í því tilviki sem hér um ræðir var umfjöllun um mann sem var á biðlista eftir aðgerð á öxl. Í veikindafríinu fylgdist vinnuveitandinn með því hvað viðkomandi var að gera og af þeim myndum var ekki annað hægt að sjá en að hann hefði átt að vera vel vinnufær. Maðurinn tapaði málinu.
Á netinu er einnig hægt að finna fjölmargar greinar um það hvers vegna fólk ætti að fara varlega í að pósta of mikið af myndum úr fríinu, á meðan fólk er í fríi. Því oft gefa þær stöðufærslur of miklar upplýsingar um það hvenær heimilið þitt stendur tómt og gæti því orðið að vettvangi fyrir innbrot og þjófnað.
Hér virðist því gilda að finna hinn gullna meðalveg.
Því þótt margir finni að því að fólk birti mjög mikið á samfélagsmiðlum, geta samfélagsmiðlar líka hjálpað starfsframanum og atvinnuleitinni.
Sem dæmi um nokkur góð ráð til að finna hinn gullna meðalveg, er til dæmis hægt að styðjast við nokkur góð ráð af vefsíðunni The Muse.
1. Vandaðu þig
Veldu vel hvað þú birtir, hvernig þú orðar hlutina og hvað þú segir eða hvenær.
Þetta á líka við um þau ummæli sem þú skrifar hjá öðrum.
2. Æskilegt að forðast pólitíska umræðu
Það er talið æskilegt fyrir starfsframann að fólk haldi pólitískum skoðunum sínum frá skrifum á samfélagsmiðlum.
Eflaust mótmæla þessu ráði helst, þeir einstaklingar sem eru mjög skoðanafastir í pólitík og sjá samfélagsmiðlana einmitt sem vettvang til að tjá sig.
Það fólk sem vill hins vegar að ásýnd sín á samfélagsmiðlum sé starfsframanum til góðs, ætti að íhuga þetta atriði vel.
3. Ekki birta of mikið eða of oft
Við eigum öll vini á samfélagsmiðlum sem virðast nánast ekki gera neitt nema að það birtist á samfélagsmiðlunum. Almennt er mælt með því að birta ekki of mikið eða of oft.
Í raun er gott að miða við að ef fólk fær á tilfinninguna að þú nánast gerir „ekkert“ nema að segja frá því, þá er það of mikið.
4. Lærðu betur á friðhelgisstillingarnar
Ef þér finnst rosalega leiðinlegt að þurfa að draga mikið úr stöðufærslum á samfélagsmiðlum getur ein góð leið verið að læra betur á friðhelgisstillingar. Því þannig getur þú birt sumar stöðufærslur án þess að allir vinirnir sjái þær.
Eða fjölgað lokuðum vinahópssíðum.
5. Ekki birta á vinnutíma
Þá er mælt með því að fólk sé ekki að birta persónulegar stöðufærslur, til dæmis myndbirtingar úr fríi eða áhugamálum með vinum, á vinnutíma.