Viðskipti innlent

Anna Sig­rún nýr fram­kvæmda­stjóri skrif­stofu for­stjóra Land­spítala

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Anna Sigrún Baldursdóttir er nýr framkvæmdastjóri skrifstofu forstjóra Landspítala.
Anna Sigrún Baldursdóttir er nýr framkvæmdastjóri skrifstofu forstjóra Landspítala. Landspítali

Anna Sigrún Baldursdóttir, sem starfað hefur sem aðstoðamaður forstjóra Landspítalans, hefur verið ráðin í nýtt starf sem framkvæmdastjóri skrifstofu spítalans. Þetta segir í tilkynningu frá Landspítalanum.

Skrifstofa forstjóra hefur miðlæga sýn yfir starfsemi, rekstur og verkefni spítalans. Undir hana heyrir meðal annars samskiptadeild spítalans, lögfræðideild, deild innri þjónustu og Hringbrautarverkefnið. Framkvæmdastjóri skrifstofunnar situr einnig í framkvæmdastjórn Landspítala.

Anna Sigrún er með BS-gráðu í hjúkrunarfræði og MBA gráðu frá Háskólanum í Reykjavík. Hún hefur einnig stundað nám í siðfræði heilbrigðisþjónustu við Háskólann í Stokkhólmi og opinberri stjórnsýslu við Háskóla Íslands.

Hún hefur starfað sem aðstoðarmaður forstjóra Landspítala frá árinu 2013. Þá var hún aðstoðarmaður félags- og tryggingamálaráðherra frá árinu 2009 til 2011, þar áður var hún aðstoðarmaður velferðarráðherra árin 2011-2013.

Anna Sigrún hefur einnig starfað við fjármálaráðgjöf á Landspítala, við rekstur sjálfstæðs fyrirtækis í heilbrigðisþjónustu og hjúkrun á Karolinska sjúkrahúsinu í Stokkhólmi, auk þess sem hún hefur starfað við hjúkrun á Landspítala og St. Franciskusjúkrahúsinu í Stykkishólmi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×