Neytendur

„Er lánið þitt ólán?“ spyrja Neyt­enda­sam­tökin og hyggjast stefna bönkunum

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Neytendasamtökin meta skilmála lánanna ólöglega.
Neytendasamtökin meta skilmála lánanna ólöglega. Vísir

„Er lánið þitt ólöglegt? Aukum gagnsæi lána!“ segir á nýrri vefsíðu Neytendasamtakanna sem opnaði í morgun. Þar er greint frá því að samtökin hyggist stefna bönkunum og leiti að lántökum til að fara með mál sín fyrir dóm.

„Hefur þú tekið lán með breytilegum vöxtum? Fjölmargir dómar og úrskurðir hafa fallið á sama veg: Lán með breytilegum vöxtum standast ekki lög,“ segir á vaxtamalid.is. „Þú gætir átt kröfu um endurgreiðslu... ef þú tekur þátt.“

Neytendasamtökin hafa samið við Lögfræðistofu Reykjavíkur um að meta réttarstöðu fólks, reikna kröfur og senda kröfubréf til lánafyrirtækja. Þá mun stofan veita ráðgjöf um fyrningar ef þörf krefur og sjá um uppgjör á grundvelli fyrirliggjandi dóma þegar niðurstaða liggur fyrir.

Á vaxtamalid.is má skrá sig til þátttöku en þar er einnig að finna leiðbeiningar fyrir þá sem vilja sækja rétt sinn á eigin spýtur. Þeir sem velja að taka þátt í málaferlum Neytendasamtakanna greiða ekkert gjald fyrir lögmannsþjónustuna nema árangur náist í innheimtu.

„Neytendasamtökin munu fara með a.m.k. þrjú mál fyrir dóm, til að fá niðurstöðu og fordæmi fyrir önnur lán með breytilegum vöxtum. Bönkunum verður stefnt til ógildingar skilmálanna og endurgreiðslu ofgreiddra vaxta til fjölda ára. Ef málin vinnast gæti endurgreiðsla hlaupið á mörg hundruð þúsundum króna fyrir hvert lán, jafnvel milljónum. Með þátttöku tryggir þú eins og frekast er unnt að þú glatir ekki rétti þínum. En bara ef þú bregst við og gerir kröfu á lánastofnun þína,“ segir á vefsíðunni.

Þar segir einnig að það sé mat Neytendasamtakanna að skilmálar velflestra lána með breytilegum vöxtum séu ólöglegir. Ákvarðanir um vaxtabreytingar séu verulega matskenndar og byggist á óskýrum skilmálum. Ekki sé hægt að sannreyna hvort þær séu réttmætar.

Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.