Neytendur

Banna full­yrðingar Lands­bjargar um „um­hverfis­væna flug­elda“

Atli Ísleifsson skrifar
Neytendastofa skoðaði fullyrðingar Slysavarnfélagsins Landsbjargar um umhverfisvænni flugenda undir yfirskriftinni „Öndum léttar – Umhverfisvænni flugeldar“.
Neytendastofa skoðaði fullyrðingar Slysavarnfélagsins Landsbjargar um umhverfisvænni flugenda undir yfirskriftinni „Öndum léttar – Umhverfisvænni flugeldar“. Vísir/Egill

Neytendastofa hefur lagt bann við fullyrðingar Slysavarnafélagsins Landsbjargar í auglýsingum sínum um sölu þeirra á „umhverfisvænni flugeldum“. Eru fullyrðingarnar taldar ósannaðar, veita rangar upplýsingar um helstu einkenni vörunnar og til þess fallna að hafa áhrif á fjárhagslega hagsmuni neytenda.

Þetta kemur fram í ákvörðun Neytendastofu sem birt er í dag. Skoðun Neytendastofu á auglýsingunum tók annars vegar til auglýsinga félagsins þar sem væru ýmsar fullyrðingum um umhverfisvænni flugenda undir yfirskriftinni „Öndum léttar – Umhverfisvænni flugeldar“.

Hins vegar náði skoðunin til myndmerkis með skopgerðum flugeldi á grænum bakgrunni með laufblaði þar sem stóð „Umhverfisvænni flugeldar“.

„Í skýringum Landsbjargar var farið yfir þær ráðstafanir sem gerðar hafa verið í tengslum við flugeldasölu til þess að draga úr neikvæðum áhrifum á umhverfið. Gerð væri grein fyrir þessu aðgerðum í umræddum auglýsingum.

Í niðurstöðum ákvörðunarinnar fjallar Neytendastofa um það að þær aðgerðir sem gripið hafi verið til við sölu flugeldanna, þ.e. að sorpgámar fyrir flugeldaúrgang séu staðsettir við helstu sölustaði, að pappi og plast sem fellur til við flugeldasölu sé flokkaður og endurunninn sem og samstarf félagsins við Skógræktarfélag Íslands varðandi gróðursetningu á trjám, leiði ekki til þess að flugeldarnir sem slíkir séu umhverfisvænni en áður. Önnur atriði séu til komin vegna lagabreytinga. Þá væri framsetning fullyrðinganna þannig að ekki væri ljóst hvort flugeldar Landsbjarnar séu umhverfisvænni en gengur og gerist á markaði eða hvort þeir séu umhverfisvænni en árin á undan.

Neytendastofa taldi fullyrðinguna því ósannaða, veita rangar upplýsingar um helstu einkenni vörunnar og til þess fallna að hafa áhrif á fjárhagslega hagsmuni neytenda. Birting fullyrðingarinnar er því bönnuð,“ segir á síðu Neytendastofu.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×