Fáir telja að svo verði.
En það er ekki nóg að vinnustaðir móti sér einhverja eina leið til að útfæra nýtt fyrirkomulag fyrir starfsfólk sem mun áfram kjósa að vinna í fjarvinnu, að hluta til eða öllu leyti.
Því eitt af því sem hefur gerst í Covid er að fólk er farið að máta það fyrirkomulag sem best hentar sér, sem þýðir að gott starfsfólk mun falast eftir störfum hjá þeim vinnustöðum sem bjóða upp á fyrirkomulag eins og þeim hentar best.
Já, fyrir Covid var fátt annað í boði en að mæta til vinnu.
En nú er öldin önnur.
Hér eru fjórar lýsingar á mismunandi týpum starfsfólks og kenningar um þá útfærslu sem þetta fólk á eftir að horfa til, þegar það velur sér vinnustaði.
1. Vinnustaðatýpan
Þessi karakter er til í að snúa til baka og halda áfram eins og ekkert hafi í skorist. Mjög líklega er þetta sá hópur fólks sem vildi ekki vera í fjarvinnu í kjölfar Covid nema í sem minnsta mæli.
Ef færi var á að vinna frekar á staðnum, valdi þessi karakter að mæta á vinnustaðinn.
Fyrir þennan hóp fólks mun taka smá tíma að venjast því að það verður alls ekki allt eins og áður. Því svo margir samstarfsfélagar líta allt öðrum augum á vinnuna nú.
2. Ástríðufulla týpan
Þessi týpa var alveg að fíla fjarvinnuna. Ekki síst sveigjanleikann sem henni hefur fylgt. En þessi karakter kann líka að meta vinnustaðinn og margt af því sem þar er.
Þess vegna er líklegt að þessi týpa eigi eftir að falast eftir vinnufyrirkomulagi sem verður í bland: Í viðveru á vinnustað hluta úr viku en í fjarvinnu hluta úr viku.
Á þann háttinn nær þessi karakter að sameina það tvennt sem honum finnst best: Félagslega hlutann í vinnunni og allt það sem þar er, en síðan sveigjanleikann og næðið sem fylgir fjarvinnunni heima fyrir.
Fyrir stjórnendur kallar þessi hópur fólks á nýja nálgun í stjórnun. Því tími stjórnunar sem gengur þvert á alla starfsmenn er í raun liðinn.
3. Heilsufíkillinn
Þetta er týpan sem leggur ofur áherslu á heilsurækt og allt sem snýr að góðri heilsu og hreysti. Þess vegna hefur fjarvinnan hentað þessum hópi ágætlega því í fjarvinnunni skapaðist enn betra jafnvægi á milli einkalífs og vinnu.
Þessi karakter er líklegur til að vilja blandað fyrirkomulag eins og ástríðafulla týpan. Hins vegar mun þessi týpa velja fjarvinnudaga í meirihluta og aðeins minni viðveru á vinnustað en ástríðufulla týpan.
Því heilsufíkillinn er meira umhugað um jafnvægi heimilis og vinnu, frekar en að sakna félagslega hlutans.
4. Andlega týpan
Þessi karakter elskar frelsið sem hefur skapast í kjölfar Covid. Að geta forgangsraðað verkefnum og vinnutíma þannig að fjölskyldan sé í forgrunni en fjarvinnan skapi sveigjanleika til að sinna verkefnum vinnunnar bara eftir því hvað hentar fjölskyldunni best.
Þessi týpa kýs fyrst og fremst að fá að sinna sínum verkefnum á þeim tíma sem honum/henni hentar best.
Áskorun stjórnenda mun felast í því að þessi hópur starfsfólks haldi áfram að upplifa sig sem hluta af teyminu.