Erlent

Rýmingar vegna yfir­vofandi hættu á sprengi­gosi

Atli Ísleifsson skrifar
Síðast gaus í La Soufrière árið 1979, eða fyrir 42 árum síðan. Ekkert manntjón varð í því gosi, þar sem tókst að vara íbúa við í tæka tíð. Gosið í fjallinu þar á undan varð árið 1902 þar sem um 1.600 manns fórust í hamförunum.
Síðast gaus í La Soufrière árið 1979, eða fyrir 42 árum síðan. Ekkert manntjón varð í því gosi, þar sem tókst að vara íbúa við í tæka tíð. Gosið í fjallinu þar á undan varð árið 1902 þar sem um 1.600 manns fórust í hamförunum. Getty

Vísindamenn telja nú stutt í að sprengigos kunni að hefjast í eldfjallinu La Soufrière á eyjunni Sankti Vinsent í Karíbahafi. Yfirvöld fyrirskipuðu í nótt þúsundum að yfirgefa heimili sín vegna yfirvofandi hættu.

„Landið okkur býr sig nú undir mögulegar hamfararir,“ ritar Ralph Gonzales, forsætisráðherra Sankti Vinsent og Grenadíneyja á Twitter.

Á síðustu dögum hefur virkni í eldfjallinu aukist til muna og í nótt var staðan metin á þann veg að sprengigos kunni að vera yfirvofandi. Var íbúum næst fjallinu gert að yfirgefa heimili sín.

Skjálftar síðustu daga eru talin merki um að kvika sé að nálgast yfirborðið. Fjölmiðillinn New784 segir frá því að gos sé talið kunna að hefjast á næstu klukkustundum eða dögum.

Stórum skemmtiferðaskipum hefur verið siglt til eyjarinnar til að aðstoða við rýmingu.

„Rýming heldur áfram bæði á landi og hafi á meðan við búum okkur undir að sprengigos hefist í La Soufrière,“ sagði í tísti almannavarna á eyjunum í nótt.

Sankti Vinsent er hluti af ríkinu Sankti Vinsent og Grenadíneyjum, með sína 110 þúsund íbúa. Flestir búa í höfuðborginni Kingstown sem er að finna á suðurhluta Sankti Vinsent. La Soufrière er á norðurhluta eyjarinnar. 

Síðast gaus í La Soufrière árið 1979, eða fyrir 42 árum síðan. Ekkert manntjón varð í því gosi, þar sem tókst að vara íbúa við í tæka tíð. Gosið í fjallinu þar á undan varð árið 1902 þar sem um 1.600 manns fórust í hamförunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×