Innlent

Sluppu með skrekkinn eftir harðan þriggja bíla árekstur

Elín Margrét Böðvarsdóttir skrifar
_VIL9279
Vísir/Vilhelm

Nokkuð harður þriggja bíla árekstur varð á mörkum Reykjanesbrautar og Sæbrautar skammt frá Súðavogi síðdegis í dag. Tilkynning barst slökkviliðinu á höfuðborgarsvæðinu um klukkan 17:20 í dag en samkvæmt tilkynningu frá lögreglunni voru tveir aðilar fluttir á slysadeild til aðhlynningar.

Samkvæmt upplýsingum frá Slökkviliðinu á höfuðborgarsvæðinu var aftur á móti enginn fluttur með sjúkrabíl á sjúkrahús þótt tveir sjúkrabílar og dælubíll hafi verið sendir á staðinn. Að sögn varðstjóra hjá slökkviliðinu var áreksturinn nokkuð harður og sprungu út púðar í bílunum en betur fór en á horfðist. Þegar viðbragðsaðilar komu á vettvang hafi aftur á móti allir ökumenn og farþegar verið komnir út úr bílunum og enginn alvarlega slasaður. Þá hófst stutt hreinsunarstarf og vettvangur síðan afhentur lögreglu.

Samkvæmt upplýsingum úr dagbókarfærslu lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu hefur lögregla í dag haft afskipti af nokkrum ökumönnum sem grunaðir voru um akstur undir áhrifum vímuefna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×