Makamál

Móðurmál: „Þú ert ekkert meiri ofurmamma ef þú gerir allt sjálf, allir foreldrar þurfa hvíld“

Ása Ninna Pétursdóttir skrifar
Jóna Kristín Birgisdóttir segir frá upplifun sinni af meðgöngu og fæðingu í viðtalsliðnum Móðurmál. 
Jóna Kristín Birgisdóttir segir frá upplifun sinni af meðgöngu og fæðingu í viðtalsliðnum Móðurmál. 

„Það kom mér á óvart hvað ég varð stolt af sjálfri mér. Allar þessar nýju tilfinningar komu líka á óvart þrátt fyrir að hafa heyrt um þær. Hvað það er hægt að elska mikið og hvað ég þráði frá fyrsta degi að veita henni alla heimsins ást og öryggi,“ segir Jóna Kristín Birgisdóttir í viðtalsliðnum Móðurmál. 

Jóna Kristín er 28 ára reykjavíkurmær búsett í Vesturbænum ásamt kærasta sínum, Jóhannesi Stefánssyni 32 ára. Jóna og Jóhannes hafa verið saman í rúmlega tólf ár og eignuðust þau sitt fyrsta barn, Irenu Fold, í janúar á síðasta ári. Jóna starfaði sem flugfreyja hjá WOW air áður en hún varð ólétt og í dag nýtur hún tímans heimavinnandi með barn sitt. 

Jóna er mjög þakklát fyrir hvað henni leið á meðgöngunni og segir það eina sem hafi hrjáð hana hafa verið þreyta. 

Aðspurð hvort heimsfaraldurinn hafi haft einhver áhrif á barneignarferlið segir Jóna hann vissulega hafa breytt stöðunni. 

„Dóttir mín var aðeins nokkurra vikna gömul þegar heimsfaraldurinn skall á. Það var auðvitað mjög óþægilegt og orlofið fór ekki alveg eins og ég hafði séð fyrir mér. Á sama tíma leið mér ekki eins og ég væri að missa af einhverju því fólk hélt sig mest heima.“

Nafnaveislunni var slegið á frest vegna faraldursins og var því haldin þegar það opnaðist gluggi síðasta sumar. 

„Þó að við hefðum tilkynnt nafnið fljótt vildum við halda veislu fyrir Irenu með fólkinu okkar. Við héldum því veisluna þegar Irena var hálfs árs.“

Þegar dóttir þeirra var svo eins árs urðu fjöldatakmarkanirnar aftur hertar þannig að þau tóku þá ákvörðun að skipta afmælinu upp í þrjú holl. 

„Eitt með móðurfjölskyldu, eitt með föðurfjölskyldu og svo síðasta með vinum. Það var mjög skemmtilegt að hitta alla. Það voru ekki of margir í einu og við nutum þess að spjalla og fagna saman. Fórum í pakkaleiki og bingó en það hefði ekki verið hægt ef við hefðum haldið eina stóra veislu með öllum.“

Ég hugsa að við munum framvegis gera þetta svona eða jafnvel hafa opið hús svo gestirnir mæti ekki allir á sama tíma og afmælið sé ekki bara tveggja tíma brjálæði sem hvorki foreldrar né barn nái almennilega að njóta.

Ársafmælið var haldið í þremur hollum vegna fjöldatakmarkana. 

Hér fyrir neðan svarar Jóna spurningum í viðtalsliðnum Móðurmál. 


Hvernig komstu að því að þú værir ófrísk? Ég var búin að vera óvenju þreytt og svo fann ég einhvern smá seyðing í leginu, þá fann ég þetta bara á mér. Ég tók óléttupróf sem mældist neikvætt og daginn eftir tók ég annað próf, aftur var það neikvætt.

Mig grunaði svo sterklega að ég væri ólétt. Ég hafði aldrei upplifað þessa tilfinningu áður og var einhvern veginn alveg viss um að ég væri ólétt. Svo ég pissaði aftur á prik tveimur dögum síðar og þá sáust tvær línur, önnur mjög dauf en hún staðfesti grun minn. 

Ég var alveg búin að sjá fyrir mér hvernig ég myndi tilkynna Jóa fréttirnar ef þetta myndi gerast. Það sem ég gerði svo var að kalla strax á hann og rétta honum prikið inni á baði og þarna stóðum við að rýna saman í þessa línu. Við knúsuðumst og táruðumst og yfir okkur helltust allskonar tilfinningar, ég gleymi þessu augnabliki aldrei.

Hvernig leið þér fyrstu vikurnar? Ég fann fyrir ógleði, aðallega ef ég varð svöng og ef ég fann sterka matarlykt, sérstaklega af kjöti. Á tímabili gat ég varla horft á kjöt. Ég var samt mjög heppin og slapp við uppköst alla meðgönguna.

Hvernig tókst þér að takast á við líkamlegar breytingar? Ég átti alveg erfitt með þessar breytingar, því mér leið svo ólíkri sjálfri mér. Það var eins og um leið og ég fékk óléttuhormónið í mig þá varð ég þreyttari og svengri svo ég borðaði meira en vanalega og hreyfði mig minna. Það hafði auðvitað þau áhrif á mig að ég þyngdist með hverjum deginum. Ég var líka lengi að fá kúlu og man hvað ég þráði að hún yrði stór og greinileg, sem hún varð svo.

Ég heyrði svo oft að það væri í lagi að æfa eins og ég æfði fyrir meðgöngu. Ég var til dæmis mikið í tabata og hóptímum með lóðum, hoppum og skoppum og ég hélt því áfram í upphafi meðgöngunnar. Ég hætti því samt eftir nokkrar vikur því mér fannst erfitt að meta hversu mikið ég ætti að vera að gera. Ég var að gera þetta í fyrsta sinn og vildi vanda mig eins vel og ég gat.

Ég var líka mun orkuminni en ég var vön. Mér leið oft eins og ég væri löt og fannst ég vera að æfa eins og gamalmenni. Ég gerði léttar æfingar heima, fór í göngutúra og synti. Spinning tímar gerðu líka mikið fyrir mig, ég fékk svo góða útrás þar og mér leið vel á hjólinu. Ég mætti alveg í spinning daginn eftir settan dag, sem segir kannski hvað mér leið vel líkamlega. Það er sannarlega ekki sjálfsagt og ég er innilega þakklát fyrir það.

Jóna segir brjóstagjöfina hafa gengið brösuglega framan af en svo þegar allt small varði hún þangað til Irena varð tíu mánaða gömul. 

Hvernig fannst þér heilbrigðisþjónustan halda utan um verðandi móður? Mjög vel. Það veitti mér öryggi hvað það var vel haldið utan um allt. Ísland hlýtur að standa mjög framarlega þegar kemur að meðgöngu og fæðingum.

Rann á þig eitthvað mataræði á meðgöngunni? Fyrstu vikurnar langaði mig bara í einföld kolvetni eins og ostaslaufu, rúnstykki, pasta og beyglu. Það var engin leið að ráða við það. Á fjórtándu viku fékk ég svo óeðlilega mikla löngun í ristað pepperoni taco, eitthvað sem ég borða aldrei. Þetta var alveg þannig að ég labbaði út á bensínstöð og sat svo þar með lokuna mína og epla svala í þeirri von um að enginn myndi sjá mig.

 Kærasti minn kom svo einhvern tímann óumbeðinn heim úr vinnunni með pepperoni taco og ég held ég hafi sjaldan verið jafn hamingjusöm. Þessi svakalega löngun varði sem betur fer bara í tvær vikur. 

Annað var það ekki, nema kannski pönnukökur. Ég gerði og át pönnukökur örugglega vikulega alla meðgönguna. Ég fór líka nánast vikulega á fiskihlaðborðið á Messanum en ég held að ég hafi ekki farið þangað síðan á meðgöngunni. Annars var ég mjög upptekin af því að næra mig vel fyrir barnið. Þetta var mín fyrsta meðganga og ég vildi gera allt rétt.

Fannst ykkur erfitt að velja nafn á barnið? Já, það voru fá nöfn sem komu til greina en við fórum alveg fram og til baka með þau. Ég fór alltaf aftur í sömu tvö nöfnin og því varð Irena Fold fyrir valinu. Okkur finnst það fullkomið. Sterkt og einstakt nafn sem lýsir hennar karakter vel.

Hvað fannst þér erfiðast við meðgönguna? Það helsta sem hrjáði mig var þreyta. Það hljómar ekki svo slæmt en mikið svakalega fannst mér óþægilegt að vera svona ólík sjálfri mér. Á seinni hluta meðgöngunnar var ég síðan með stöðugan brjóstsviða, þannig að ég var með Rennie og Tums í öllum veskjum og í náttborðinu. Brjóstsviðinn fór svo um leið og Irena kom í heiminn.

Irena Fold með foreldrum sínum Jóhannesi og Jónu Kristínu. 

Hvað fannst þér skemmtilegast við meðgönguna? Ég gleymi því ekki þegar ég fann fyrstu greinilegu hreyfingarnar. Það var einstök upplifun að finna fyrir litlu lífi inni í mér. Það var líka svo skemmtilegt að fara á sjautjándu viku í auka sónar og fá að vita kynið. Allur undirbúningurinn og tilhlökkunin við það að fá barnið sitt í fangið stendur líka upp úr.

Undirbjugguð þið ykkur eitthvað fyrir fæðinguna? Já, við kynntum okkur hvernig ferlið færi af stað lásum okkur til og heyrðum reynslusögur. Við töluðum um það hvernig við sæjum þetta fyrir okkur. Ég treysti líkamanum mínum og við vorum ákveðin í að gera þetta saman.

Hvernig gekk fæðingin? Fæðingin fór hægt af stað en hún gekk mjög vel. Þegar ég var loksins komin með fulla útvíkkun og fann rembingsþörf þá var dóttir mín mætt í heiminn hálftíma síðar. Ljósmóðirin var rosalega hjálpleg og fagmannleg.

 Þegar kollurinn var kominn hálfur út þá sagði hún: „Vilt þú svo ekki bara taka á móti henni í næsta rembing?“ Og það gerði ég. Þetta var ólýsanleg upplifun. Ég mun samt aldrei gleyma þeim hrottalegu verkjum sem fylgdu hríðunum. Samt sem áður hlakka ég til að gera þetta aftur.

Hvernig tilfinning var að fá barnið í fangið? Ég fann svo mikla sigur tilfinningu. Þetta var hamingjuríkasta og magnaðasta stund lífs míns. Ég hef horft nokkrum sinnum á myndbandið af fæðingunni og þegar ég fæ hana fyrst í fangið. Tilfinningarnar þar leyna sér ekki og það er alveg erfitt að skæla ekki. Fallegasta minning sem ég á er samt þegar ég var að labba með dóttur mína í spítalavöggunni frá fæðingarstofunni niður á sængurkvennadeild. Það var eitthvað svo sturlað. Þarna var hún bara mætt, svo lítil og fullkomin.

Hvað kom mest á óvart við að fæða barn og verða móðir í fyrsta sinn? Það kom mér á óvart hvað ég varð stolt af sjálfri mér. Allar þessar nýju tilfinningar komu líka á óvart þrátt fyrir að hafa heyrt um þær. Hvað það er hægt að elska mikið og hvað ég þráði frá fyrsta degi að veita henni alla heimsins ást og öryggi. Það kom mér líka á óvart hvað tíminn líður hratt, ég hef ekki verið jafn meðvituð um það fyrr en ég átti Irenu. Allar klisjurnar sem ég hafði heyrt reyndust sannar. Þegar Irena var rúmlega fjögurra mánaða þá byrjuðum við að gefa henni graut og það kom mér á óvart hvað ég upplifði mikið frelsi þegar hún var ekki algjörlega háð mér um næringu allan sólarhringinn.

Jóna segir það vanta meira inn í umræðuna hvernig lífið er eftir að barnið kemur í heiminn. 

Einhver umræða sem þér finnst að þurfi að opna varðandi meðgöngu og fæðingar? 

Mér finnst umræðan mjög opin í samfélaginu í dag varðandi bæði meðgöngur og fæðingar og ég fagna því. Mér finnst jafnvel mega tala meira um tímann eftir að barnið er komið í heiminn. 

Sá tími getur verið mjög krefjandi. Það var mér mjög dýrmætt alla meðgönguna og eftir að Irena fæddist að eiga vinkonu sem hefur gengið í gegnum þetta. Það var rosalega mikill stuðningur í því að eiga hana að. Hún sýndi öllu ferlinu svo mikinn áhuga og eftir að Irena fæddist hefur hún verið svo hvetjandi, nærgætin og hjálpleg. Ég veit til þess að margar mömmur upplifi mikla bugun fyrstu mánuðina og mér finnst mega leggja meiri áherslu á það í mæðraverndinni að makinn passi upp á það að mamman nái að hvílast.

Finnst þér mikil pressa í samfélaginu að eiga allt til alls fyrir barnið? Ég upplifði það ekki. Mér fannst mikið talað um að búðir séu enn opnar eftir komu barnsins og svo er hægt að panta flest á netinu í dag en úrvalið af barnavörum á Íslandi er mjög gott. Ég nýtti mér Barnaloppuna mikið fyrir minnstu stærðirnar og þar fann ég ýmislegt fallegt sem var eins og nýtt. Mér finnst líka gaman að foreldrar okkar geymdu tímalausa hluti eins og skó og rúmföt frá okkar barnæsku sem við gátum svo notað.

Hvernig gekk brjóstagjöfin? Brjóstagjöfin var algjört bras til að byrja með. Við þurftum að nota hatt fyrstu dagana því hún náði ekki nógu góðu taki á brjóstinu. Litla vesenið sem það var en Irena var meira og minna á brjóstinu allan daginn fyrstu dagana. Ég fékk ótrúlega góða aðstoð frá ljósmæðrum, bæði á sængurlegunni og í heimaþjónustunni. Við vorum búnar að ná mjög góðu taki á brjóstagjöfinni eftir tvær vikur. Irena hefur alltaf sofið vel en hún drakk mikið á nóttunni. Hún var ekkert að vakna heldur bara rumska í leit að brjósti og hún drakk sofandi. Þetta raskaði mínum svefn svakalega. Eftir að ljósmóðirin sagði við okkur í níu mánaða skoðuninni að hún ætti ekkert að þurfa að drekka á nóttunni lengur þá vildum við venja hana af því. Hún ráðlagði mér að sofa í öðru herbergi eða fara út af heimilinu í að minnsta kosti þrjár nætur. 

Til þess að venja hana af brjóstinu á nóttunni tók pabbi hennar fjórar nætur með hana hjá foreldrum sínum þegar Irena var að verða tíu mánaða. Það gekk rosalega vel og eftir það lærði hún að kunna að meta pelann. Við gættum þess að hún borðaði vel fyrir svefninn og svo fékk hún pela og sofnaði sjálf í sínu rúmi.

 Eftir þessar fjórar nætur hætti hún alveg að vakna á nóttunni fyrir brjóstakúr og byrjaði að sofa í sínu herbergi alla nóttina. Mjólkurframleiðslan mín minnkaði mjög og Irena elskaði pelann svo við tókum þá ákvörðun um að hætta brjóstagjöfinni alveg þegar hún var tíu mánaða.

Eru einhver skilaboð eða ráðleggingar sem þú vilt koma til verðandi mæðra?

Verið óhræddar við að biðja um aðstoð. Ég er enn að minna mig á þetta. Þú ert ekkert meiri ofurmamma ef þú gerir allt sjálf. Allir foreldrar þurfa hvíld. Treystu sjálfri þér. Að taka ekki óumbeðnum ráðum og skoðunum fólks persónulega, fólk meinar vel en veit ekki endilega best.

Það er líka eitt ráð sem pabbi gaf mér þegar Irena var nýfædd, en það er að gæta þess að taka ekki fram fyrir hendurnar á makanum. Ég hef haft það ráð bak við eyrað síðan.


Tengdar fréttir

Hugsið vel um konuna ykkar, bæði fyrir og eftir fæðingu

„Það voru sumir sem voru hissa að ég hafi tekið þrjá mánuði í fæðingarorlof. Einnig heyrði maður suma tala um að pabbarnir væru ekki í stóru hlutverki fyrstu mánuðina, ég upplifði það alls ekki þannig,“ segir Þorgeir Logason í viðtalsliðnum Föðurland.

„Ég byrjaði að rembast og Hörður var ekki enn kominn“

„Ég var ein nánast í allri fæðingunni og það var mjög óþægilegt þar sem ég var að gera þetta í fyrsta skipti og vissi ekkert. En ljósmæðurnar voru æðislegar svo að það hjálpaði mikið til.“ Þetta segir Móeiður Lárusdóttir, eða Móa eins og hún er alltaf kölluð, í viðtali við Makamál.

Móðurmál: „Ég bjóst aldrei við að ég myndi fá að upplifa svona fæðingu“

„Ég held að konur í dag, nú tala ég algjörlega fyrir sjálfa mig, séu svo meðvitaðar um það hversu mikil guðs gjöf það er að geta gengið með og eignast barn að maður á erfitt með að láta það út úr sér ef að ferlið er ekki alltaf dans á rósum,“ segir Fanney Ingvarsdóttir í viðtalsliðnum Móðurmál.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×