Samstarf

„Án mannauðs er fyrirtækið ekki neitt“

HR Monitor
Harpa Víðisdóttir, mannauðsstjóri hjá Verði segir mannauðsfólk  alltaf með fangið fullt af áhugaverðum verkefnum.
Harpa Víðisdóttir, mannauðsstjóri hjá Verði segir mannauðsfólk  alltaf með fangið fullt af áhugaverðum verkefnum.

Reglulegar vinnustaðamælingar veita dýrmæt gögn fyrir mannauðsdeildir fyrirtækja til að hlúa að starfsfólki.

Harpa Víðisdóttir segir mannauðsmál, vellíðan, framfarir og árangur fólks hafa verið henni hugleikin alla tíð. Hún segir mikilvægt að hafa puttann á púlsinum þegar kemur að fólkinu í fyrirtækinu, ekki síst í dag þegar áskoranir vegna kórónuveirunnar eru miklar.

„Það er mikil hvatning fólgin í því að sjá fólk blómstra og ná árangri og því hefur það hentað mér vel að starfa við mannauðsmál. Ég hef starfað við mannauðsmál hjá Verði í um 10 ár og hef notið þess hverja stund.

Mannauðsfólk er alltaf með fangið fullt af áhugaverðum verkefnum sem ná yfir alla þætti rekstrar og undir lok árs erum við yfirleitt á handahlaupum að klára það sem klára þarf fyrir árslok. Við höfum nýverið lokið okkar sjöundu jafn launaúttekt sem við stóðumst með sóma enda jafnréttismálin orðin inngreipt í hjörtu okkar og menningu. Áætlunarvinna, mannauðsmælingar, stuðningur við starfsfólk og vinnustaðinn vegna kórónuveirunnar, markmiðasetning til næstu vikna og ráðningar er eitthvað sem við erum að vinna þessa dagana.“

Hvað getur þú sagt mér um áherslurnar í mannauðsmálum ykkar í dag?

„Við erum og ætlum að vera eftirsóknarverður vinnustaður og vinnum ötullega að því dag frá degi. Við leggjum alltaf mikla áherslu á lifandi og jákvætt starfsumhverfi, jafnrétti, sveigjanleika, aðlögunarfærni og starfsánægju. Við hlúum vel að heilsu og vellíðan okkar fólks og fáum til þess stuðning fagaðila sem hefur aldrei verið mikilvægara en nú á tímum kórónuveirunnar. Við höfum sérstaklega lagt áherslu á þætti eins og traust, þakklæti, samkennd, auðmýkt og virðingu á tímum kórónuveirunnar, þar sem starfsfólk hefur stutt við hvort annað og látið ótrúlega hluti gerast. Framundan er nýtt ár með nýjum áskorunum fyrir vinnustaði og starfsfólk og nauðsynlegt að vera vel á verði næstu vikur og mánuði. Það er mikilvægt að saman fari jákvæð og uppbyggileg menning á vinnustað samhlið krefjandi og framsæknum verkefnum. Þannig skapast öflug liðsheild fólks sem nær mögnuðum árangri.“

Með samfellda vinnustaðamælingu í þrjú ár

Hvenær byrjuðu þið að nota HR Monitor?

„Árið 2016 byrjuðum við að feta þann veg að gera reglulegar mælingar. Frá þeim tíma höfum við farið frá því að gera mælingar 2-3 sinnum ár ári yfir í það að gera mánaðarlegar mælingar, en þær innleiddum við í mars 2018. Það líður því að þeim tíma að við eigum samfellda vinnustaðamælingu í þrjú ár, það eru dýrmæt gögn sem gefa okkur mikla sögu.“

Hvernig styðja mælingarnar við ykkur í daglega lífinu?

„Mælingarnar eru tækifæri fyrir starfsfólk til að koma skoðunum á framfæri með reglubundnum hætti. Niðurstöður þeirra gefa hlutlægt mat á stöðu þeirra þátta sem mældir eru hverju sinni. Með því að fá slíkar niðurstöður í hendur komumst við hjá því að geta í eyðurnar eða gefa okkur eitthvað sem við höfum ekki staðfestingu á. Það er okkar markmið að vinna með í það minnsta einn umbótarþátt eftir hverja mælingu, þannig náum 12 eða fleiri markvissum umbótum á einu ári. Við nýtum mælingarnar einnig til að meta framfarir, drögum þær fram og hrósum okkur óspart fyrir þær. Það er svo ótrúleg hvatning í hrósinu. HR Monitor mælingarnar eru hluti af okkar KPI‘s og því mikilvægt að hafa mánaðarlega mælingar.“

Mælingarnar eru tækifæri fyrir starfsfólk til að koma skoðunum á framfæri með reglubundnum hætti.

Niðurstöðurnar gefa góðar vísbendingar

Var eitthvað sem kom þér á óvart í ykkar fyrstu mælingum?

„Já, hugsanlega hversu mörg tækifærin voru til umbóta og hversu ólíkar niðurstöðurnar voru fyrir einstaka svið. Niðurstöðurnar gáfu okkur góðar vísbendingar um hvaða verkefni við ættum að ráðast í og hvernig við ættum að forgangsraða þeim. Í framhaldi var mjög hvetjandi að sjá verkefnin verða að veruleika og niðurstöður mælinga breytast til batnaðar.

Þarna komu fram skilaboð frá starfsfólki um þætti sem við höfðum einfaldlega ekki horft til en fengum tækifæri til að breyta og vinna markvisst að. Það er svo mikilvægt að bjóða uppá svona mælingar og enn mikilvægara fyrir okkur starfsfólkið að nýta þetta tækifæri til að koma okkar skoðunum á framfæri.“

Hvernig er kórónuvírusinn að hafa áhrif á dagleg störf og er gott að mæla núna í þessu árferði?

„Það ástand sem vírusinn hefur skapað hefur haft mjög víðtæk áhrif en í okkar tilfelli hefur allur rekstur gengið betur en nokkur þorði að vona og líklega erum við að horfa uppá besta ár félagsins til þessa. Starfsfólk félagsins hefur verið óþreytandi við að leita leiða og lausna og lætur þetta ástand ekki stoppa sig. Við upplifum meiri ró yfir fólki nú í haust en í vor, en að öllum líkindum eru við komin í aðeins betri þjálfun í þessu nýja starfsumhverfi. Það er mjög mikilvægt að mæla nú á þessum tímum sem og öðrum. Það að eiga eldri mælingar til samanburðar er einnig mjög áhugavert. Hjá félaginu hafa allar mælingar farið uppá við á árinu 2020 samanborið við fyrri ár og hefur starfsánægja, heildar árangur og „Varðarvísitala“ félagsins aldrei mælst jafn há en nú, en Varðarvísitalan mælir helgun starfsfólks.“

Fólkið sem færir fyrirtækinu árangurinn

Hvaða máli skiptir mannauðurinn í ykkar fyrirtæki?

„Án mannauðs eru fyrirtæki ekki neitt. Það er hugvit starfsfólks, áræðni þess, þekking, geta og dugnaður sem færir okkur árangur frá degi til dags. Öflugur mannauður skiptir okkur öllu máli og því vöndum við okkur alla daga að gera vel og vinna að sanngirni og metnaði að málum er snúa að mannauði.“

Hvað vonarðu að nýtt ár hafi í för með sér?

„Það hefur sennilega sjaldan verið eins áhugavert og spennandi að fara inn í nýtt ár eins og nú, þó erfitt verði að segja nákvæmlega til um hvað bíður okkar. Áskoranir verða margar og ófyrirséðar en í þeim felast klárlega tækifæri. Það er mín helsta von að við sem samfélag rísum aftur upp og náum fullri heilsu, líkamlegri, félagslegri og fjárhagslegri.“

Hvernig er síðasta ár búið að vera hjá ykkur?

„Árið er búið að vera okkur óvanalegt en á sama tíma farsælt og lærdómsríkt. Öðruvísi vinnuaðstæður og nýtt verklag er eitthvað sem allir þurftu að tileinka sér en ný reynsla, þekking og fullt af nýjum tækifærum skapaðist samtímis. Það er mikilvægt að taka það jákvæða út úr þessari reynslu og aðstæðum um leið og við lærum að því sem betur hefði mátt gera. Okkar fólk hefur staðið sig með eindæmum vel á þessum óvanalegu tímum og fyrir það erum við afar þakklát.“

Finnst þér HR Monitor ætti heima í öllum fyrirtækjum og þá af hverju?

„Mánaðarlegar mælingar með HR monitor hafa reynst okkur dýrmætt tól til að greina tækifærin, bregðast við og vinna jafnt og þétt að því að gera vinnustaðinn okkar betri í dag en í gær. Ég hef þá trú að allir vilji bæta sig og gera betur frá degi til dags, en í slíkri vinnu er mikilvægt að hafa skýr markmið og mælingar til að styðja sig við og vita í hvora áttina maður er að fara. Vörður er Fyrirtæki ársins hjá VR 2019 og 2020 en sú viðurkenning er tilkomin með skýrum fókus og sýn á markmið og leiðina að markmiðinu. Mælingar eru grundvöllur þess að vita hvort maður er að gera rétt eða rangt í leiðinni að markmiðinu.“

Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×