Makamál

Hugsið vel um konuna ykkar, bæði fyrir og eftir fæðingu

Ása Ninna Pétursdóttir skrifar
Þorgeir Logason segir einlægt frá upplifun sinni af meðgöngu og fæðingu í viðtalsliðnum Föðurland. 
Þorgeir Logason segir einlægt frá upplifun sinni af meðgöngu og fæðingu í viðtalsliðnum Föðurland. 

„Það voru sumir sem voru hissa að ég hafi tekið þrjá mánuði í fæðingarorlof. Einnig heyrði maður suma tala um að pabbarnir væru ekki í stóru hlutverki fyrstu mánuðina, ég upplifði það alls ekki þannig,“ segir Þorgeir Logason í viðtalsliðnum Föðurland.

Þorgeir og kona hans Sara Karlsdóttir eignuðust sitt fyrsta barn fyrir fjórum mánuðum síðan. Þorgeir er 29 ára og starfar sem tæknimaður og grafíker fyrir Stöð2 Sport.

„Þar að auki er ég að klára bachelor nám í miðlun og almannatengslum við Háskólann á Bifröst.“

Fyrstu jólin saman sem fjölskylda. Þorgeir, Sara og Logi Karl. 

Drauminn segir Þorgeir vera að flytja út og fara í framhaldsnám en kærasta hans Sara er stjórnmálafræðingur að mennt. 

„Eins og ástandið er í dag nær maður ekki að hugsa svo langt fram í tímann en okkur Söru langar mikið til að flytja út og fara í framhaldsnám. Hvenær það verður er góð spurning.“

Hér fyrir neðan svarar Þorgeir spurningum í viðtalsliðnum Föðurland


Hvernig tilfinning var það að komast að því að þið ættuð von á barni? Tilfinningin var alveg stórkostleg. Augnablikið kom á óvæntum tíma. Ég var búinn að vera í vinnunni allan daginn og Sara hafði þurft að sitja á þessum fréttum í nokkra klukkutíma. Við vorum búin að melda okkur í Superbowl partý eftir vinnu hjá mér svo að planið mitt eftir vinnu var að bruna heim, sækja Söru, skipta um föt og drífa okkur af stað í partýið. Þær fimm mínútur breyttust í klukkutíma. Sara gerði þetta að ógleymanlegri stund. Hún hafði keypt litla íþróttatreyju og skrifaði sætt bréf til mín. Mér þótti ótrúlega vænt um það.

Það má kannski fylgja sögunni að við enduðum á því að stoppa stutt í partýinu.

Þegar við mættum þangað var ómögulegt að taka hugann frá litla krílinu og maður var í yfirsnúning af spennu. Það var sérstaklega erfitt að fara leynt með þetta, bæði vegna þess að fréttirnar voru svo ferskar og einnig vegna þess að maður var umkringdur góðum vinum sem maður átti erfitt með að segja ekki frá óléttunni.

Hvernig tilkynntuð þið fjölskyldunni um meðgönguna? Við vissum mjög snemma af óléttunni og þar af leiðandi tilkynntum við foreldrum okkar mjög snemma. Svo í kringum 12. viku var mikil óvissa vegna Covid þannig að við notuðum hinar ýmsu leiðir til að segja vinum og fjölskyldu frá óléttunni. Allt frá því að fara fyrir utan glugga með sónarmynd yfir í að segja fólki frá því á Facetime. Við hefðum svo sannarlega verið til í að hafa það allt meira persónulegra en létum það samt ekki á okkur fá.

Sara blómstrandi og falleg með kúluna sína. 

Hafði heimsfaraldurinn mikil áhrif á meðgönguna og fæðingu? Covid hafði mikil áhrif. Ég fékk hvorki að vera viðstaddur þegar Sara heyrði hjartsláttinn í fyrsta sinn né þegar hún fór í sónar í fyrsta sinn. 

Það var fúlt að standa í þessum sporum í fyrsta sinn og ekki fá að upplifa það sem annars væri venjulegt að fá að upplifa. Faraldurinn var hvað verstur þarna í kringum 12. viku meðgöngunnar og í kringum fæðinguna, 16.okt. Þar af leiðandi voru mörg augnablik í tengslum við meðgönguna, fæðinguna og svo eftir fæðinguna sem voru lituð af heimsfaraldrinum. Kannski helst þegar við tilkynntum fólki frá óléttunni og þegar við héldum skírn - þá var ennþá tíu manna samkomubann.

Var eitthvað sem þér fannst sjálfum erfitt við meðgönguna sjálfa? Já, Sara var mjög slöpp á löngum köflum meðgöngunnar og mér fannst mjög erfitt að horfa upp á það. Það var mjög oft sem að mig langaði til að geta gert meira fyrir hana. Maður sá hvaða fórnir hún þurfti að færa til þess að ganga með son okkar. Ég er þvílíkt þakklátur henni fyrir það og ótrúlega stoltur af þessari hetjudáð hennar á meðgöngunni. Sénsinn að ég hefði púllað það að vera veikur samfellt í marga mánuði en samt ekki láta á mér sjá.

Hvernig upplifðir þú þitt hlutverk á meðgöngunni? Mér fannst mitt hlutverk mest snúast um það að styðja Söru og reyna hjálpa henni á einhvern hátt í gegnum veikindin á meðgöngunni. Maður steig upp í húsverkunum. Svo kannski get ég líka sagt að mér fannst hlutverk mitt einnig snúast um það að vera á tánum og vera ekki alveg úti að aka í málum sem snéru að meðgöngunni og fæðingunni. Ég las mig til og leitaði eftir góðum ráðum frá vinum og vandamönnum.

Fenguð þið að vita kynið? Já, við fengum að vita kynið. Okkur fannst frábært að geta gert smá atburð úr því. Alveg frá upphafi meðgöngunnar vorum við bæði með það á tilfinningunni að þetta væri stelpa og þess vegna kom það skemmtilega á óvart að þetta væri strákur. Við vorum svo hissa. Eftir að við vissum kynið fannst okkur auðveldara að mynda tengingu við barnið.

Fannst þér þú ná að tengjast ófædda barninu? 

Ég er mjög þakklátur hversu mikið Sara gerði í því að láta mig vera part af tengingunni sem hún fann. Tilhlökkunin jókst mikið við að finna fyrir bumbuspörkunum. Mér fannst það alveg geggjað. 

Svo vorum við búin að ákveða nafnið snemma þannig að við vorum dugleg að máta nafnið þegar við vorum heima, það hjálpaði kannski pínu við það að mynda tengingu.

Undirbjugguð þið ykkur eitthvað fyrir fæðinguna? Já, við fórum á fæðingarnámskeið hjá 9 mánuðum. 

Hvað fannst þér skemmtilegast að upplifa á meðgöngunni sem maki? Ég held að mér hafi fundist þessar litlu stundir okkar Söru skemmtilegastar. Þegar við vorum að láta okkur hlakka til og ímynda okkur hvernig framtíðin myndi vera með eitt lítið kríli í lífi okkar.

Hver var algengasta spurningin sem þú fékkst á meðgöngunni?  Hvað er Sara komin langt? Ertu ekki spenntur? - Það var einhvern veginn erfitt að ná utan um þetta spennustig sem maður fann fyrir þannig að ég svaraði alltaf bara með einföldu ....Jú! Mjög spenntur.

Besta tilfinning sem hann hefur nokkurn tíma fundið segir Þorgeir þegar hann lýsir því hvernig var að sjá barnið sitt í fyrsta skipti. 

Hvernig leið þér fyrir fæðinguna? Það var erfitt að hemja spenninginn. Þetta varð allt svo raunverulegt þegar Sara fór af stað. Mér fannst við vera mjög tilbúin í þetta og ég hafði jákvæða tilfinningu fyrir fæðingunni. Ég vissi samt ekkert hvað við vorum að fara út í þrátt fyrir að vinir manns höfðu reynt að lýsa þessum aðstæðum fyrir manni. Mér fannst þetta einhvern veginn allt öðruvísi en þær frásagnir sem ég hafði heyrt. Þetta gerðist allt mjög hratt hjá okkur og við vorum mjög fljótt komin með strákinn okkar í hendurnar.

Hvernig upplifðir þú þitt hlutverk í fæðingunni? Vera 100% til staðar og gera allt sem mögulegt var til að láta Söru líða sem best. Ég bjóst við því fyrirfram að ég myndi vera mjög órólegur en svo reyndist ekki vera, að sögn Söru allavega.

Hvernig tilfinning var það að sjá barnið í fyrsta skipti? Hún var alveg ólýsanleg. Besta tilfinning sem ég hef nokkurn tímann fundið fyrir. Mér brá smá fyrst því að naflastrengurinn var tvívafinn um hálsinn en ljósmóðirinn tók einhvern rosalegan snúning og græjaði það á einni millisekúndu.

 Svo fékk ég hann í fangið mjög stuttu eftir fæðinguna vegna þess að Sara missti mikið blóð í sjálfri fæðingunni og það þurfti að sinna henni. Það var svona atvik sem maður bjó sig ekki alveg undir. Maður var því bæði að upplifa sterkustu tilfinningar í heimi og áhyggjur útaf blæðingunni hjá Söru. Sara reyndi að láta mig vita að það væri allt í lagi bara svo að ég gæti notið þess að horfa á barnið okkar í fyrsta sinn.

Hvernig gekk að finna nafn á barnið? Um leið og við fengum að vita að þetta væri strákur vorum við alveg viss með nafnið. Hann heitir Logi Karl í höfuðin á báðum öfum sínum. Við vildum skíra hann í höfuðið á pabba mínum sem lést úr krabbameini árið 2009 og pabba hennar Söru, tveimum frábærum fyrirmyndum.

Hér er Logi karl aðeins tveggja daga gamall. Nöfnin fær hann frá báðum öfum sínum. 

Hvernig upplifðir þú fyrstu vikurnar sem nýbakaður faðir? Sá tími er mér alveg einstaklega kær. Maður var mikið meyr og maður fann fyrir eintómri hamingju og ólýsanlegri gleði. Dagarnir fóru í það að stara á son minn og dást að honum. 

Fyrstu dagarnir voru líka mjög tilfinningaríkir. Ég fann að það fylltist í ákveðið tómarúm sem hafði verið í mínu lífi í mörg ár. Það eru komin ellefu ár síðan pabbi kvaddi okkur og margar tilfinningar sem spruttu upp tengt því. Ég hugsaði mikið hvað hann hefði elskað að fá að sjá litla afa strákinn sinn.

Hversu ánægður ertu með þá fræðslu og aðstoð sem þú fékkst með tilkomu föðurhlutverksins? Hvað þann þátt varðar þá var hann kannski pínu litaður af Covid. Sem dæmi þá fékk ég ekki koma með í Mæðravernd fyrstu mánuðina og þar af leiðandi var Sara helsta upplýsingagjöf til mín varðandi ýmsa hluti tengda föðurhlutverkinu. Ef það var eitthvað sem skilaði sér ekki þá var auðvelt að afla sér upplýsinga og fá góð ráð bæði frá vinum og á netinu. Öll aðstoð sem við fengum upp á spítala og í heimaþjónustunni var alveg upp á 10. Sama má segja um aðstoð frá báðum fjölskyldum okkar, hefðum ekki geta verið heppnari með það.

Er eitthvað sem þér finnst vanta inn í umfjöllunina eða fræðslu fyrir verðandi feður, hefðir þú viljað fá meiri fræðslu? Ekkert sem ég get endilega bent á. Ég held að fræðslan sé alltaf að aukast og mér fannst umræðan opin í kringum mann. Það er jákvætt.

Tókstu þér fæðingarorlof? Já, ég ætlaði upprunalega að taka mér eins og hálfs mánaða fæðingarorlof. Það breyttist í þrjá mánuði eftir að allt fór í stopp v/covid. Þegar ég ætlaði að koma tilbaka var ekki mikil vinna í boði fyrir mig þannig ég myndi segja að tímasetningin hafi verið góð að því leyti. 

Mér fannst dásamlegt að fá þessa þrjá mánuði og sjá son minn vaxa og dafna. Mér finnst að feður eigi klárlega að nýta fæðingarorlof sitt ef þeir hafa tök á því. Það voru sumir sem voru hissa að ég hafi tekið þrjá mánuði í fæðingarorlof. Einnig heyrði maður suma tala um að pabbarnir væru ekki í stóru hlutverki fyrstu mánuðina, ég upplifði það alls ekki þannig.

Fannst þér það breyta sambandinu ykkar að verða foreldrar? Mér finnst við klárlega samrýmdari. Frá því að Logi Kalli fæddist höfum við reynt að sinna sambandinu vel þó að það sé oft erfitt.

Einhver skilaboð eða ráðleggingar sem þú hefur til verðandi feðra? 

Fyrst og fremst hugsið vel um konuna ykkar, bæði fyrir og eftir fæðingu.

Logi Karl fjögurra mánaða dúlla. 





Fleiri fréttir

Sjá meira


×