Innlent

Íbúar á Reyðarfirði beðnir að loka gluggum vegna bruna

Elín Margrét Böðvarsdóttir skrifar
Slökkvistarf stendur yfir.
Slökkvistarf stendur yfir. Skjáskot/Birgir Guðjónsson

Töluverður eldur logar á athafnasvæði Hringrásar á Hjallaleiru á Reyðarfirði. Slökkvistarf stendur yfir að því er fram kemur í tilkynningu á heimasíðu Fjarðabyggðar. Nokkurn reyk mun leggja frá svæðinu og yfir byggð á Reyðarfirði.

Íbúar eru beðnir að hafa glugga lokaða á meðan á stendur. Þá er fólk jafnframt beðið um að vera ekki á ferð á svæðinu að óþörfu á meðan slökkvistarf stendur yfir.

Meðfylgjandi myndband af brunanum tók Birgir Guðjónsson á Reyðarfirði. 

Uppfært klukkan 13:50:

Slökkvilið Fjarðabyggðar hefur nú náð tökum á eldinum og fer slökkvistarfi senn að ljúka. „Þeir eru að klára að slökkva í þessu og eru búnir að ná tökum á þessu og eru núna að ljúka við að slökkva allan eld,“ segir Þórður Vilberg Guðmundsson, upplýsingafulltrúi Fjarðabyggðar í samtali við fréttastofu og hefur eftir slökkviliðsstjóra á svæðinu.

Ekki liggur fyrir að svo stöddu hvað olli upptökum eldsins. „Þetta er svona járnruslahaugur sem að kviknaði í, bortajárn. En það er í rauninni ekki vitað út frá hverju kviknaði í,“ segir Þórður. Nokkurn reyk lagði yfir bæinn um tíma.

„Það var logn rétt fyrir hádegi þegar þetta kom upp, þá lagði örlítinn reyk frá þessu yfir bæinn en svo snérist vindáttin og snérist út á fjörðinn. En það var talsverður eldur fyrst til að byrja með, og reykur,“ segir Þórður.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×