Makamál

Konudagurinn: „Ekki bjóða uppá einhverja konudags-mótþróaröskun“

Ása Ninna Pétursdóttir skrifar
Ætlar þú að gleðja konuna í þínu lífi á konudaginn? 
Ætlar þú að gleðja konuna í þínu lífi á konudaginn?  Getty

Konudagurinn, fyrsti dagur Góu er á Sunnudaginn. Tilefni til að fagna bjartari tímum og konunum í lífi þínu. Svo sannarlega tími til að gera sér dagamun, eða hvað?

Hvaða væntingar hafa konur í dag til konudagsins? Hefðir hafa breyst með tíðarandanum og mjög misjafnt hvað fólki finnst almennt um þessa daga, bóndadag, konudag og valentínusardag. Meðan sumir leggja sig alla fram við að gleðja ástina í lífinu sínu þessa daga eru aðrir sem fussa og sveia og undra sig á því afhverju það þarf að fagna einhverjum degi á almanaki? 

Þá væri líka hægt að segja, afhverju ekki? Afhverju ekki að nota öll tilefni sem gefast til að gleðja fólkið sem er þér kærast. 

„Fyrir mér eru það litlu hlutirnir sem skipta máli og eru í raun stóru hlutirnir þegar kemur að því að gleðja á svona dögum,“ segir einn viðmælandi Makamála þegar hún er spurð út í væntingar sínar til konudagsins en Makamál tóku tal af nokkrum konum og fengu að forvitnast um þeirra óskir. 

 Þó svo að svörin hafi verið ólík mátti greina það að konurnar voru allar með hóflega stilltar væntingar. Fæstar nefndu gjafir eða nefndu einhverjar ákveðnar kröfur um veraldlega hluti. Rauði þráðurinn var þó greinilegur. Flestar óska þær sér að ástin í lífi þeirra geri eitthvað til að gleðja þær á þessum degi. Hvort sem það er kaffibolli í rúmið, góður matur eða að taka tíma frá og gera eitthvað saman. 


„Ég hlakka mikið til konudagsins. Kærastinn minn er búinn að segja mér allt sem stendur til og ég er mjög ánægð með planið. Ég vona samt smá að það sé líka eitthvað óvænt. Smá óvæntur rómans.“

27 ára - Söngkona


„Ég hef yfirleitt ekki háar væntingar fyrir konudeginum og nægir mér hreinlega að eftir honum sé munað með „Til hamingju með daginn ástin mín“ og fallegum orðum í kjölfarið til að toppa. En nú er ég með tvö lítil börn sem gerir það frekar sjaldgæft að við foreldrarnir eigum langar og miklar gæðastundir. Draumurinn fyrir konudaginn væri því núna að maðurinn minn væri búinn að koma börnunum okkar fyrir í pössun og við færum í geggjaðan bröns, helst með mimósum og myndum sitja og spjalla og njóta. Svo færum við kannski í nudd og spa sem væri æði fyrir þreytta líkama. Út að borða um kvöldið þar sem við myndum halda áfram að njóta þess að tala í heilum setningum og hlusta á hvort annað án þess að hafa yndispúkana að kalla á athygli. Nótt á hóteli með ljúfum morgunmat væri svo toppurinn. Þetta væri ég samt bara til í hvort sem það er konudagur eða ekki.“

42 ára - Leikstjóri


„Mínar væntingar eru að maðurinn minn sé allavega búinn að pæla í því að gera eitthvað sætt fyrir mig. Hvort sem það eru blóm, að leyfa mér að sofa út, eitthvað trít eða brunch. Auðvitað best samt að fá tíma með honum og fá að vera smá miðpunktur athyglinnar, sem er auðvitað alltaf gaman.“

28 ára - Nemi


„Í fyrsta lagi, ekki bjóða uppá einhverja konudags-mótþróaröskun, þetta er einn dagur á ári. Taktu bara þátt og stattu þig vel. Fyrir mér eru það litlu hlutirnir sem skipta máli og eru í raun stóru hlutirnir þegar kemur að því að gleðja á svona dögum. Hvort sem um ræðir kaffibolla í rúmið, daður, freyðibað og frí frá eldhússtörfum. Og sértu ekki maður margra blóma svona alla jafna er þetta tilvalinn dagur til að skella blómum í vasa, láta renna í freyðibað og láta kalt kampavínsglas fylgja með. Láttu hana einfaldlega upplifa að hún skipti þig máli. Það er dýrmætara en allar gjafir.“

40 ára - Markaðsstjóri


„Ég er kannski ótrúlega óspennandi þegar kemur að svona. Hef engar væntingar umfram aðra daga. Bara hafa það huggulegt saman eins og alltaf.“

61 - árs - Sérfræðingur


„Væntingar eiga ekki að vera miklar. Mér finnst að dagurinn eigi að snúast um ástina og þakklæti fyrir konuna sem þú hefur í lífi þínu. Sýna væntumþykju með hlýhug - Þó gjöf, dekur, blóm eða góður matur hitti alltaf í mark.“

35 ára - Fjölmiðlakona


„Mér finnst almenn mánudagsrómantík miklu dýrmætari en fyrirfram ákveðinn dagur úr gömlu almanaki. Held að þetta sé hefð sem fjari út með tímanum því mér finnst þessir dagar ekki passa við lífið almennt. Ég geri því nákvæmlega engar væntingar til konudagsins. Ef ég hugsa til baka þá finnast mér þetta skemmtilegar hefðir, bæði konu- og bóndadagur. Fékk einhvern tíma blóm frá tengdó þennan dag sem mér þótti vænt um og pabbi gaf okkur mömmu alltaf báðum blóm þennan dag sem er falleg minning. En ég vil ekki vera undir pressu á bóndadaginn og geri því engar væntingar um að eitthvað sé gert fyrir mig á konudaginn.“

42 ára - Framkvæmdarstjóri


„Ég hef engar stórkostlegar væntingar til konudagsins en er samt nokkuð viss um að kærastinn minn komi mér einhvern veginn á óvart í tilefni dagsins. Það gæti verið alls konar rómó; kaffibolli í rúmið og blóm eða jafnvel bröns eða dinner.. ég bíð bara spennt!“

35 ára - Blaðakona og rithöfundur


„Væntingar? Nákvæmlega ENGAR.“

36 ára - Fatahönnuður


„Hef ekki miklar væntingar en eiginmanninum finnst svo gaman að gleðja mig og er mun duglegri í svona hlutum en ég. Við ákváðum samt að borða eitthvað gott saman. Ég er ekki alin upp við að gera mikið úr svona dögum. En mér finnst það voða gaman og ætli væntingarnar séu ekki einhverjar þó að ég stilli þeim nú í hóf. Fyrsta árið okkar saman gaf hann mér skó. Þá stillti hann rána ansi hátt og vinir hans skömmuðu hann.“

41 árs - Hjúkrunarfræðingur


Lumar þú á sögu tengdri konudeginum? 

Tökum á móti skemmtilegum, sniðugum, misheppnuðum og allavega sögum á netfangið makamál@syn.is 


Tengdar fréttir

Íslenskir karlmenn um bóndadaginn: Vilja góðan mat og „trít í svefnherberginu“

Bóndagurinn, fyrsti dagur Þorra, er þennan föstudag. Dagurinn þar sem hefð er fyrir því að gleðja og dekra við bóndann á heimilinu. Við getum öll verið óörugg þegar kemur að því að skipuleggja eitthvað fyrir maka okkar. Hvað er of mikið og hvað er of lítið? Hvað er það sem gleður hann mest á bóndadaginn?  

Flestir að kljást við vandamál tengd kynlífi

Vandamál í kynlífi geta verið margskonar og mis alvarleg. Flest vandamál ætti þó að vera hægt að leysa með því að tjá sig heiðarlega um væntingar sínar og þarfir en einnig með því að leita sér aðstoðar hjá fagfólki. 
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.