Erlent

Fyrstu dauðs­föllin vegna ebólu í Gíneu frá 2016

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Læknir í hlífðarfatnaði heldur á tveggja vikna gömlu barni sem talið er smitað af ebólu. Myndin er frá 2014 þegar ebólufaraldurinn reið yfir Vestur-Afríku.
Læknir í hlífðarfatnaði heldur á tveggja vikna gömlu barni sem talið er smitað af ebólu. Myndin er frá 2014 þegar ebólufaraldurinn reið yfir Vestur-Afríku. Getty/Kristin Palitza

Minnst þrír hafa látist vegna ebólusýkingar í Gíneu og fimm aðrir hafa greinst smitaðir af veirunni. Fólkið fór að sýna einkenni, uppköst, niðurgang og blæðingar, eftir að hafa verið viðstatt jarðarför.

Á árunum 2013-2016 dóu meira en ellefu þúsund manns í ebólufaraldrinum í Vestur-Afríku en faraldurinn átti upptök sín í Gíneu. Fjöldi bóluefna var þróaður í kjölfar faraldursins og hafa þau verið notuð til þess að stemma stigu við útbreiðslu veirunnar í Austur-Kongó.

Veiran smitast til manna við snertingu við sýkt dýr, þar á meðal simpansa, ávaxtaleðurblökur og antilópur. Veiran smitast á milli manna við snertingu við blóð, líkamsvessa eða líffæri eða við beina snertingu við sýkta snertifleti.

Útfararhefðir í sumum samfélögum í Vestur-Afríku felast meðal annars í því að fjölskylda og vinir hins látna þvo líkinu fyrir greftrun og getur það verið smitleið fyrir ebólu. Lík ebólusjúklinga geta verið sérstaklega smitandi, en meðgöngutími veirunnar eru tveir dagar upp í þrjár vikur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×