Makamál

Einhleypan: „Ætla að verða saksóknari þegar ég verð stór“

Ása Ninna Pétursdóttir skrifar
Hún er nautnaseggur af guðs náð, er ekki á Tinder og veit fátt betra en að fá kaffibolla í rúmið. María Sjöfn Árnadóttir er Einhleypa vikunnar. 
Hún er nautnaseggur af guðs náð, er ekki á Tinder og veit fátt betra en að fá kaffibolla í rúmið. María Sjöfn Árnadóttir er Einhleypa vikunnar.  Vilhelm/Vísir

„Ég er sveitalúði í grunninn en hef búið á malbikinu um nokkurt skeið. Er til einhver titill sem nær yfir það?“ segir María Sjöfn Árnadóttir Einhleypa vikunnar þegar hún er spurð hvernig hún myndi titla sig.

María Sjöfn er 48 ára sérfræðingur í þinglýsingardeild hjá Sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu. Einnig starfar hún í málefnanefndum um heilbrigðis- og velferðarmál og innanríkismál í stjórnmálaflokki.

„Ég stefni svo að löggildingu í eignaskiptayfirlýsingargerð í mars næstkomandi og ætla að verða saksóknari þegar ég verð stór.“

Eins og hjá svo mörgum hefur heimsfaraldurinn haft mikil áhrif á líf Maríu sem er í áhættuhóp og hefur því þurft að vera sérstaklega varkár.

Það tekur á að vera einhleyp í Covid og ég hef þurft að einangra mig mikið frá öðrum. Ég má víst ekki fá þessa veiru svo það hefur verið lítið um stefnumót. Bíð eftir bóluefni til að laga ástandið. Ég hef aldrei verið eins spennt fyrir neinu boði á ævinni, eins og bóluefnaboði gegn Covid. Ég vona að þú sjáir þetta Þórólfur.

„Sveitalúði í grunninn,“ segir María Sjöfn þegar hún spurð hvernig hún myndi titla sig. 

Hér fyrir neðan svarar María spurningum úr viðtalsliðnum Einhleypan.


Nafn? María Sjöfn Árnadóttir.

Gælunafn eða hliðarsjálf? Maja.

Aldur í árum? 48 ára. 

Aldur í anda? 25-ish!

Menntun? Verslunarpróf, BA í lögfræði og ekki langt í embættisprófið.

Hvað myndi sjálfsævisagan þín heita? Aldrei gefast upp.

Guilty pleasure kvikmynd? Tucker and Dale v.s. Evil.

Varstu skotin í einhverjum frægum þegar þú varst yngri? Ójá, Gulla Briem.

Talar þú stundum um þig í þriðju persónu? Haha, nei. 

María Sjöfn starfar sem sérfræðingur í þinglýsingardeild hjá Sýlsumanninum á höfuðborgarsvæðinu.

Syngur þú í sturtu? Alltaf. Hef fengið skilaboð frá nágranna og verið beðin um að syngja hærra, hef sem betur fer ekki ennþá fengið skilaboð um að það sé búið að hringja á lögregluna.

Uppáhaldsappið þitt? Perfit.

Ertu á Tinder eða öðrum stefnumótaforritum? Nei.

Hvernig myndir þú lýsa þér í þremur orðum? Ákveðin, réttsýn og fyndin.

Hvernig myndu vinir þínir lýsa þér í þremur orðum? Þegar ég sendi þetta á vinina komu ansi mörg lýsingarorð upp sem erfitt var að velja úr. Ég kýs að horfa framhjá orðinu hrakfallabálkur. Þannig að samandregið virðist ég vera réttsýn, klár og húmoristi.

Að njóta íslensku náttúrunnar og rækta barnið í sjálfri sér segir María vera eitt af því skemmtilegra sem hún geri. 

Hvaða persónueiginleikar finnast þér heillandi? Heiðarlegt fólk með húmor og nokkur kíló af góðmennsku, það er gullblanda. Þeir sem þora að vera þeir sjálfir og þeir sem eru færir um að setja sig í spor annarra.

Hvaða persónueiginleikar finnast þér aldeilis ekki heillandi? Hrokafullt fólk sem telur sig yfir aðra hafið. Óheiðarlegt fólk og fólk sem er í hlutverki alla daga og þorir ekki að vera það sjálft.

Hvaða dýr værir þú ef þú værir dýr? Pottþétt hlébarðalæða - panthera pardus black.

Ef þú mættir velja einhverja þrjá einstaklinga úr sögunni (lífs eða liðna) til að bjóða í kvöldmat og spjall, hverja myndir þú velja? Ruth Bader Ginsburg, Bono og Steven Gerrard.

Býrðu yfir einhverjum leyndum hæfileikum? Já, heldur betur. Ég get gert mig rangeygða á öðru auganu, það eru mjög fáir sem hafa séð það í raunveruleikanum. Eins er ég með gull í gömlu dönsunum sem fáir vita um.

Hvað finnst þér skemmtilegast að gera? Njóta íslenskrar náttúru, sama í hvaða formi það er m.a. göngu, útilegu eða bílrúnti. Lifa í núinu. Horfa á fótbolta og handbolta á stórmótum og í takmörkuðu magni á premier league. Spila póker og borðspil í hópi vina. Syngja, dansa og fara á tónleika sem er bara eðal. Rækta barnið í sjálfri mér, til dæmis fer ég í aparólur og rennibrautir reglulega.

Hvað finnst þér leiðinlegast að gera? Þrífa bílinn minn og versla, ef ég væri rík þá myndi ég ráða fólk til að sjá um hvorutveggja fyrir mig.

Ertu A eða B týpa? Ég er klárlega AAA týpa.

Hvernig viltu eggin þín? Allskonar á alla vegu, borða fjögur egg á dag, alla daga í hvaða formi sem þau eru. Þegar ég hugsa þetta út frá efnahagslegum sjónarmiðum, þá væri mjög hagkvæmt fyrir mig að eiga hana og hænur miðað við neyslu.

Hvernig viltu kaffið þitt? Svart með smá mjólk eða rjóma. Best er að fá kaffi í rúmið þegar ég er með hálflokuð augu, það er bara eitthvað við það.

Þegar þú ferð út að skemmta þér, á hvaða staði ferðu? Ég fer þangað sem lifandi tónlist er í boði á hverju sinni.

Ertu með einhvern Bucket-lista? Númer eitt er að verða saksóknari, láta gott af mér leiða fyrir samfélagið. Ferðast og skoða heiminn. Nóta íslenskrar náttúru í botn og njóta lífsins á meðan ég get það. Ég er nautnaseggur af guðs náð. Það er alls ekki sjálfsagt að fá að lifa þessu lífi svo það er dagurinn í dag sem skiptir máli.

Draumastefnumótið? Góður dinner og dans og söngur eftir mat.

Einhver söngtexti sem þú hefur sungið vitlaust? Mjög margir, man þó ekki hverjir það eru.

Hvað horfðir þú á síðast í sjónvarpinu? Secret and Lies á Netflix.

Hvaða bók lastu síðast? Lög um meðferð sakamála ásamt greinargerð.

Hvað er Ást? Ást er að mínu mati gagnkvæm virðing og hrifning, aðdráttarafl tveggja einstaklinga á hvoru öðru. Traust og að deila lífinu, sorgum og gleði hvors annars. Að standa saman í hverju því sem lífið býður upp á hverju sinni. Að sama skapi finnst mér nauðsynlegt að virða einstaklingsfrelsi einstaklings í sambandi.

María Sjöfn segist heillast að heiðarleika, húmor og góðmennsku. 

Fyrir áhugasama er hægt að nálgast Instagram prófíl Maríu Sjafnar hér. 


Tengdar fréttir

Saflát kvenna: Hvað er það að skvörta?

„Það er alltaf erfitt að vera að bera saman fullnægingar, svolítið eins og að bera saman sársauka. En ef þú spyrð konur sem hafa upplifað skvört-fullnægingar þá lýsa þær henni yfirleitt sem mjög kröftugri og djúpri fullnægingu, en það er samt sem áður mjög einstaklingsbundið,“ segir Sigga Dögg kynfræðingur í viðtali við Makamál.

Móðurmál: Í lífshættu eftir fyrri bráðakeisara en ákvað að reyna leggangafæðingu

„Þetta er náttúrulega mjög sérstök staða. Að vera sagt upp í fæðingarorlofi og í raun lítið hægt að gera á meðan maður veit ekki alveg hver næstu skref eru. En ég ætla ekki að láta þetta verða kvíðavald í lífinu heldur ætla bara að njóta með mínum og sjá hvort að svarið komi ekki bara til mín með vorinu,“ segir Steinunn Edda Steingrímsdóttir í viðtalsliðnum Móðurmál. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×