Erlent

Biden vill bæta í bólu­setningar

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Joe Biden í gær.
Joe Biden í gær. AP/Matt Slocum

Joe Biden, verðandi Bandaríkjaforseti, lofaði í gær að undir hans stjórn myndu bandarísk stjórnvöld bæta í bólusetningar við kórónuveirunni.

Hyggst Biden láta fjölga bólusetningarstöðum og auka birgðir af bóluefni til þess að tryggja að markmið hans um að hundrað milljónir Bandaríkjamanna verði bólusettar á fyrstu hundrað dögum hans í embætti.

„Sum velta fyrir sér hvort við séum að teygja okkur of langt. Leyfið mér að vera alveg skýr, ég er sannfærður um að við getum gert þetta,“ sagði Biden í ræðu í gær.

Í fyrradag kynnti Biden 1.900 milljarða dollara aðgerðapakka sem ætlað er að örva efnahag Bandaríkjanna og draga úr áfallinu sem kórónuveirufaraldurinn hefur valdið. Faraldurinn hefur komið einna verst niður á Bandaríkjunum en í engu öðru ríki heims hafa fleiri greinst með Covid-19.

Um 400 milljarðar dollara af 1.900 eiga að fara í verkefni sem ætlað er að draga úr útbreiðslu veirunnar eða minnka skaðann sem af henni hlýst. Þannig verður peningunum varið í að koma upp fjöldabólusetningarstöðvum, bæta smitrakningu og auka raðgreiningargetu, svo eitthvað sé nefnt.

Sagðist Biden handviss um að mögulegt væri að ráðast í verkið af fullum krafti en ítrekaði þó að Bandaríkjaþing þyrfti að samþykkja ráðstöfunina. Demókrataflokkurinn, flokkur Bidens, er með meirihluta í báðum deildum þingsins.

Þá biðlaði Biden til fólks að sýna áfram varúð og sinna persónubundnum smitvörnum, nota grímur, forðast mannamót og stunda reglulegan handþvott.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×