Viðskipti innlent

Stöndum verr en Skandínavíuþjóðir

Rúmur helmingur íslenskra neytenda telur lög um neytendavernd ekki nægileg. Eru þau þó í samræmi við lög í nágrannalöndum. 
fréttablaðið/teitur
Rúmur helmingur íslenskra neytenda telur lög um neytendavernd ekki nægileg. Eru þau þó í samræmi við lög í nágrannalöndum. fréttablaðið/teitur
Íslendingar eru í níunda sæti yfir meðvitaða neytendur í Evrópu. Um 74 prósent þjóðarinnar telja sig vera vel að sér í neytendamálum og 56 prósent telja lög um neytendavernd nægilega sterk.

Þetta kemur fram í nýrri könnun Framkvæmdastjórnar neytendamála hjá Evrópusambandinu (ESB) um kunnáttu, færni og viðhorf neytenda í viðskiptum. Greint er frá niðurstöðunum á heimasíðu Neytendasamtakanna.

Norðmenn eru í fyrsta sæti í könnuninni og þar á eftir koma Finnar, Hollendingar, Danir og Svíar. Lettneskir, litháískir, rúmenskir, ungverskir, búlgarskir og spænskir neytendur eru þeir sem eru hvað verst að sér í neytendamálum. Þeir sem hafa litla eða enga tölvukunnáttu og ekkjur og ekklar standa verr að vígi en aðrir. Þeir sem hættu námi fimmtán ára eða yngri stóðu sig verr í könnuninni heldur en þeir sem hafa meiri menntun.

Samkvæmt könnuninni er færni íslenskra neytenda yfir meðaltali hvað varðar þekkingu og útreikninga á verði og vöxtum. Einnig eru Íslendingar vel að sér þegar kemur að gölluðum vörum og réttindum vegna þeirra. Þá eru Íslendingar nokkuð duglegir að kvarta og leita réttar síns miðað við aðrar Evrópuþjóðir.

„Þetta er í samræmi við okkar tilfinningu. Íslenskir neytendur urðu meðvitaðri um neytendamál eftir hrun og meira vakandi yfir rétti sínum. Við gerum meiri kröfur," segir Hildigunnur Hafsteinsdóttir, lögfræðingur hjá Neytendasamtökunum. Hún segir það ekki koma sér á óvart að Íslendingar standi verr að vígi en Skandínavíuþjóðirnar og slíkt sé ekkert nýtt, enda sé umfjöllun um neytendamál í fjölmiðlum mun minni hér á landi heldur en á hinum Norðurlöndunum.

„Það þarf að auka neytendaþætti í fjölmiðlum. Þetta er svo breitt svið og snýr að því sem við gerum alla daga," segir Hildigunnur. Í Danmörku, þar sem mikið framboð er af slíku efni, segjast um 75 prósent þátttakenda hlusta eða horfa á slíkt efni.

Þátttakendur í könnuninni voru um 55 þúsund, frá öllum aðildarríkjum Evrópusambandsins auk Íslands og Noregs. Skoðaðir voru ýmsir þættir er snúa að þekkingu neytenda á réttindum sínum og löggjöf, hvernig þeir fylgja kvörtunum sínum eftir og hæfni í að greina upplýsingar.

sunna@frettabladid.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×