Jól

Hlustar á jólalög allt árið

Lilja Björk Hauksdóttir skrifar
Fjölskylda Ingerar hefur gaman af öllu sem er "skemmtilega hallærislegt“ og eiga að sjálfsögðu allir meðlimir hennar eina góða jólapeysu.
Fjölskylda Ingerar hefur gaman af öllu sem er "skemmtilega hallærislegt“ og eiga að sjálfsögðu allir meðlimir hennar eina góða jólapeysu.
Inger Ericson getur svo sannarlega ekki þrætt fyrir að vera eitt það mesta jólabarn sem fyrir­finnst. Meðal þess sem veitir henni þann titil er sú staðreynd að hún hlustar á jólalög allan ársins hring. „Ég grínast alltaf með að það sé þess vegna sem ég þurfi aldrei að taka inn geðlyf eða dvelja í þunglyndi. Það er þó einungis nánasta fjölskylda mín sem verður þess heiðurs aðnjótandi að hlusta á jólalögin með mér allan ársins hring, öðrum gef ég frí frá þeirri gleði frá svona miðjum mars fram í byrjun september því merkilegt nokk þá finnst öðru fólki þetta ekki alveg jafn gefandi og mér.

Börnin mín hafa alist upp við þetta og þeim er alveg hætt að finnast þetta eitthvað skrítið og oftar en ekki syngja þau jafn dátt og ég með lögunum. Við fjölskyldan lifum fyrir fyrirbærið „skemmtilega hallærislegt“ og finnst hlutir eins og að syngja jólalög allan ársins hring bara skemmtilega halló,“ segir Inger.

Hún segist eiga mjög erfitt með að velja uppáhaldsjólalög en að sum þeirra veki aðeins dýpri minningar og gleði en önnur. „Til dæmis Jackson Five jólaplatan og líka gömul jólaplata sem mamma spilaði alltaf sem ég veit ekki hvað heitir en hún innihélt lög eins og Aðfangadagskvöld og Ég kemst í hátíðarskap, en annars á ég góðar minningar um svo mörg lög að listinn yrði ansi langur ef ég ætti að telja þau öll upp.“Inger Ericson er eitt mesta jólabarn sem um getur.
Von á litlum jólaálfum

Inger býr í Danmörku með börnunum sínum tveimur, dönskum manni sínum og tveimur börnum hans. „Hvort sem það var hluti af því að blanda saman tveimur fjölskyldum eða bara gleðin við að upplifa ólíka jólastemningu þá var svolítið gaman að upplifa „dönsk jól“ á síðasta ári. Það er gaman að segja frá því að flestir Danir setja ennþá kerti (ásamt seríum) á jólatrén sín og kveikja svo á þeim á aðfangadag eftir mat og syngja og dansa í kringum þau. Ég ætla ekki að segja þér hvað unglingunum mínum fannst þetta pínleg hefð,“ segir Inger og hlær.

Það stækkar enn í barnahópnum hjá Inger og manni hennar fyrir þessi jólin en von er á tvíburum. „Það er viðeigandi að ég eigi von á tvíburum sem eru settir 1. janúar en þar sem ekki er venja að láta konur ganga með tvíbura fram yfir 38 vikur munu þessi jólabörn fæðast eigi síðar en 18. desember og eru því litlu jólaálfarnir í ár.“

Heilög gjöfin frá Kertasníki

Jólin eru ekkert nema hefðir í veröld Ingerar og snýst ein mikilvægasta þeirra um gjöf til hennar frá Kertasníki. „Allir sem þekkja mig vita að það skiptir mig engu máli hvort ég fái jólapakka eða afmælispakka, það er einungis einn pakki sem ég vil alltaf fá. Heilagi pakkinn er sá sem „Kertasníkir“ gefur mér og ég vakna við á aðfangadagsmorgun. Mismunandi aðilar hafa sinnt því mikilvæga hlutverki og var mamma fyrst.

Fyrstu jólin sem fyrrverandi manninum mínum var úthlutað hinu mikilvæga hlutverki gleymdi hann því. Þegar hann sá hversu sár ég varð að vakna ekki við þann pakka sá hann til þess að ég myndi aldrei upplifa það aftur. Hann spurði mig meira að segja hvort hann ætti að gefa mér þann pakka fyrstu jólin eftir að við skildum en ég hafði þegar hugsað fyrir því að elskuleg systir mín, hún Lotta, tæki að sér það hlutverk og hefur hún gegnt því þar til núverandi maðurinn minn tók við.“ 

Inger segist þó alls ekki vera nein öfgamanneskja og vill umfram allt að allir eigi góð, gleðileg og gæfurík jól. „Ef ég væri einhver svona „crazy lampoon-mamma“ þá væri það varla stemningin,“ segir hún og hlær.Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.