Atvinnulíf

Auglýsendur sem náðu forskoti í kreppum

Rakel Sveinsdóttir skrifar
Auglýsinga- og markaðsmál skipta miklu máli á samdráttartímum.
Auglýsinga- og markaðsmál skipta miklu máli á samdráttartímum. Vísir/Getty

Þegar lausafjárstaða er erfið og sala dregst mikið saman er fyrirtækjum tamt að draga saman seglin í auglýsinga- og markaðsmálum. Þó segja fræðin að það sé einmitt á samdráttartímum sem auglýsinga- og markaðsmál skipta hvað mestu máli. Þetta á við um bæði stærri og smærri fyrirtæki og kemur meðal annars fram í umfjöllun Atvinnulífsins á Vísi Sjö ráð fyrir smærri fyrirtæki á krepputímum.

En eru þetta réttar kenningar og hvað er því til sönnunar?

Í umfjöllun Forbes segir að rannsóknir hafi nú sýnt það í tæpa öld að markaðsmál skipta verulega miklu máli á krepputímum. Og það sem meira er: Auglýsendur geta jafnvel náð forskoti á markaði sem síðan verður undirstaða frekari velgengni um langa hríð. Hér eru nokkur dæmi sem Forbes tiltekur í umfjöllun sinni.

Í kreppunni uppúr 1920 var morgunkornið Post með ráðandi markaðsstöðu í Bandaríkjunum. Þegar kreppan skall á, dró Post úr öllum auglýsingum öfugt við það sem Kelloggs gerði. Kelloggs gerði nákvæmlega hið gagnstæða og tvöfaldaði auglýsingafé sitt. Sala jókst um 30% og Kelloggs hefur æ síðan verið með leiðandi stöðu á markaði.

Toyota lék svipaðan leik á samdráttarskeiði tímabilið 1973-1975. Tölur um eldsneytisnotkun í Bandaríkjunum frá þeim tíma sýna að Honda hafði þá forskot á Toyota og Volkswagen trónaði á toppnum. Sala Toyota hafði gengið ágætlega en frekar en að draga saman í auglýsingum, breyttu þeir áherslunum og fóru í ímyndarauglýsingar frekar en söluauglýsingar með langtímamarkmið í huga. Árið 1976 var Toyota strax komið með forskot á Volkswagen.

Í litlu kreppunni 1990-1991 nýttu bæði Pizza Hut og Taco Bell tækifærið þegar McDonalds ákvað að draga verulega úr auglýsingum. Fyrirtækin gáfu vel í auglýsingar og endaði Pizza Hut með því að auka söluna um 61% og Taco Bell 40%. Salan hjá McDonalds dróst hins vegar saman um 28%.

Vöxtur Amazon var 28% árið 2009. Skýringin á þessu er að í kjölfar bankahrunsins tók Amazon þá stefnu að kynna mun meira vöruúrval til sögunnar en áður og oft á lægra verði en víða tíðkaðist. Margt þótti þó nokkuð nýstárlegt, til dæmis rafbækur. En svo vel tókst til að jólin 2009 keyptu viðskiptavinir Amazon fleiri rafbækur en prentaðar, sem sparaði kostnað hjá Amazon og pening hjá viðskiptavinum.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×