Innlent

Suð­vestan­áttin ríkjandi næstu daga

Atli Ísleifsson skrifar
Spákort Veðurstofunnar fyrir hádegið í dag, eins og það lítur út nú í morgunsárið.
Spákort Veðurstofunnar fyrir hádegið í dag, eins og það lítur út nú í morgunsárið. Veðurstofan

Suðvestanáttin verður ríkjandi hjá okkur næstu daga. Veðurstofan spáir fimm til þrettán metrum á sekúndu, éljagangi á vestanverðu landinu sem geti náð austur með Norðvesturlandi og eins með suðausturströndinni. Oftast verði bjart og fallegt veður á Norðaustur- og Austurlandi í suðvestanáttinni.

Í hugleiðingum veðurfræðings segir að hiti ætti víðast hvar að komast í eitt til fjögur stig að deginum á láglendi en reikna megi með að hitinn falli undir frostmark að næturlagi.

„Útlit er fyrir að enn meira milt loft komist til okkar um og eftir helgi og gæti jafnvel staðið í nokkra daga og ætti þá að taka enn meira af snjónum sem fyrir er. Þar sem mikil snjóþyngsli eru um norðanvert landið og á Vestfjörðum er gott að hafa í huga að leysingavatn finnur alltaf syðstu leið og því mikilvægt að hreinsa frá niðurföllum eins og kostur er,“ segir í hugleiðingum veðurfræðings.

Veðurhorfur á landinu næstu daga

Á miðvikudag: Suðvestan 3-10 m/s og dálítil él, en bjartviðri A-lands. Hiti kringum frostmark.

Á fimmtudag: Suðvestan 8-13 m/s með éljum, en bjartviðri NA-til. Víða vægt frost.

Á föstudag: Vestlæg átt og dálítil él, en lengst af léttskýjað syðra. Heldur kólnandi í bili.

Á laugardag, sunnudag og mánudag: Vestanáttir, dálítil slydda á V-verðu landinu og síðar súldarloft, en þurrt eystra og hlýnar í veðri.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×