Atvinnulíf

Að mæta til vinnu aftur eftir jólafrí: Úff!

Rakel Sveinsdóttir skrifar
Það getur verið hægara sagt en gert að mæta aftur til vinnu eftir gott jólafrí.
Það getur verið hægara sagt en gert að mæta aftur til vinnu eftir gott jólafrí. Vísir/Getty

Það getur verið erfitt að vakna til vinnu eftir gott frí. Ekki síst þessa vikuna þegar vinna þarf mánudag til miðvikudags og þá aftur í frí. Tvær vikur af skertri vinnuviku og góðum fríum getur gert það að verkum að við finnum til ákveðinnar leti að þurfa að mæta aftur til vinnu. Úff!

En hér eru nokkur góð ráð sem geta hjálpað.

1. Huglægur undirbúningur

Til að hjálpa okkur er mikilvægt að undirbúa hugann með jákvæðum hugsunum. Í stað þess að stynja yfir tilhugsuninni um að þurfa að mæta til vinnu, dauðþreytt og hálf lúin, stillum við hugann inn á jákvæðar hugsanir fyrir komandi vinnudag og vinnuviku. Þá er mikilvægt að hefja þennan huglæga undirbúning strax um næstu helgi til að undirbúa endurkomu í vinnu eftir áramót.

Það er margsannað að jákvætt hugarfar kemur okkur langt.

2. Hvað verður skemmtilegast í dag?

Í stað þess að mæta til vinnu, horfa sífellt á klukkuna, geispa og bíða eftir því að vinnudegi ljúki er um að gera að hressa sig við með þeirri ákvörðun að gera daginn skemmtilegan og góðan. Hvað getur þú gert í dag sem er skemmtilegt og hvað liggur fyrir í dag sem þér mun finnast skemmtilegast? Er það eitthvað sérstakt verkefni sem þú ætlar að klára? Skemmtilegir viðskiptavinir? Eða þarftu bara að hressa þig við með því að skella þér í göngutúr í hádeginu?

Síðan getur þú líka brotið upp daginn með því að prófa að gera eitthvað aðeins öðruvísi en áður. Færa þig um set í kaffistofunni eða breyta rútínunni þinni þannig að verkefnalistinn verður öðruvísi en venjulega.

Að hafa gaman snýst oft um hvernig við leggjum okkur fram við að gera hlutina aðeins skemmtilegri. Þannig að brettu upp ermar og hresstu þig við!

3. Bættu úr vinnuaðstöðunni þinni

Hvernig er vinnuaðstaðan þín? Er kominn tími til að breyta henni aðeins? Færa einhverja hluti til eða hreinlega taka til, sortera og henda fyrir áramót? Er birtan góð? Stóllinn rétt stilltur? 

Við verðum ágætlega upptekin þegar við gefum okkur smá tíma í að huga að því hvernig aðstaðan okkar er. Of sjaldan gefum við okkur tíma í að tryggja að hún sé góð þannig að þennan fyrsta dag eftir jólafrí er upplagt að bæta úr því sem hægt er.

Það mætti kannski líka gera hana hlýlegri og persónulegri? Hér er um að gera að nýta aðeins hugmyndarflugið því það gerir okkur ánægð eftir daginn ef við náum að klára eitthvað sem okkur líður vel með.

4. Verkefnalistinn

Áður en við förum í nýjan verkefnalista eða undirbúning fyrir næsta ár er ágætt að velta því líka fyrir sér hvort það séu einhver ókláruð verkefni hjá okkur. Er til dæmis einhver tölvupóstur sem þú ætlaðir þér alltaf að svara en hefur ekki gert enn? Eða viðskiptavinur sem þú ætlaðir að senda línu en hefur ekki gert enn?

Það er ágætt að vera með fyrsta dag eftir  jólafrí ekkert of bókaðan í verkefni önnur en þau að gefa sér tíma í eitthvað sem þú of oft gefur þér ekki tíma í. Fyrsti dagurinn verður þannig óhefðbundinn dagur og þér mun líða vel í dagslok að hafa klárað eitthvað sem setið hefur á hakanum.

Ef það eru einhver mál sem þú hefur lengi viljað ræða við yfirmanninn, er líka upplagt að nýta þessa viku í að klára þær umræður. Að minnsta kosti að láta vita að þú óskir eftir samtali.

5. Fyrsti dagurinn í janúar

Loks er ágætt að nýta vinnudagana á milli jóla- og nýárs til að setja sér markmið um vinnuvikuna sem hefst í janúar. Þetta gætu verið markmið um verkefni í vinnunni eða aðrar breytingar. 

Ef þú ætlar til dæmis að fara að borða hollar og hreyfa þig meira má nýta þessa viku til að undirbúa það hvernig nesti væri sniðugt að útbúa eða hvar og hvenær yfir daginn þú ætlar að auka við hreyfingu. Er það göngutúr í hádeginu þegar þú ert í fjarvinnu eða að ganga upp stiga í vinnunni? Og hvaða verkefni væri gaman að demba sér í strax á nýju ári? Hvaða árangur sérðu fyrir þér að ná í starfinu þínu á næsta ári?


Tengdar fréttir





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×