Innlent

Rjúpnaveiði lítil í vetur: Formaður Skotvís telur líklegt að fálkadauða megi rekja til rjúpnaleysis

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Rjúpnaveiði hefur verið lítil í vetur.
Rjúpnaveiði hefur verið lítil í vetur. Vísir/Vilhelm

Rjúpnaveiði hefur verið fremur lítil í vetur og segir formaður Skotveiðifélags Íslands, Skotvís, að það sem bjargi jólamatnum á mörgum heimilum séu rjúpur í frystinum frá síðasta vetri. Veiðin rétt dugi fyrir jólamatnum.

„Tilfinningin er sú að þetta sé svipað og var 2011, þá voru þetta um 30 þúsund rjúpur. Það er alveg nóg í jólamatinn en ekki mikið meira,“ sagði Áki Ármann Jónsson, formaður Skotvís, en hann ræddi rjúpnaveiðina í Reykjavík síðdegis á Bylgjunni seinni partinn í dag.

Veiðin hafi verið mjög misjöfn á milli landshluta, og jafnvel innan þeirra líka.

„Sumir voru bara með nokkra kílómetra milli hvors annars, annar fékk slatta en hinn ekki neitt,“ segir Áki.

Vandamálið megi rekja til þess að rjúpnaungum fari fækkandi á hverja hænu. Áður fyrr hafi um 8,6 rjúpnaungar fylgt hverri hænu í upphafi skotveiðitímabilsins en nú séu þeir um 6,5. Vandamálið hefur þó ekki aðeins áhrif á jólamat landsmanna, heldur á fálka, en þeirra helsta fæða eru rjúpur.

Sex dauðir eða deyjandi fálkar fundust hér á landi í nóvember og telur fuglafræðingur góðar líkur á því að rjúpnaleysi sé um að kenna. Þrír fálkanna voru fullorðnir en óvenjulegt er að stálpaðir fálkar finnist dauðir. Áki segir mjög líklegt að rekja megi dauða fálkanna til rjúpnaleysis.

„Mjög líklega, það er bara gangur náttúrunnar að þegar rjúpnastofninn fer niður þá fækkar í fálkastofninum. Hjá fálkunum nær það lágmarki svona tveimur árum eftir lágmarki hjá rjúpunni,“ segir Áki.

Hægt er að hlusta á viðtalið við Áka í heild sinni í spilaranum hér að neðan.


Tengdar fréttir

Telur fálkadauða mega rekja til rjúpnaleysis

Sex dauðir eða deyjandi fálkar hafa fundist hér á landi í nóvember. Þrír ungar og þrír fullorðnir. Tveir þeirra hafa fundist á Akureyri. Fuglafræðingur telur góðar líkur á því að rjúpnaleysi sé um að kenna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×