Innlent

Framtíðarsýnin að konur geti sjálfar tekið strok

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Óskar Reykdalsson, forstjóri Heilsugæslunnar á höfuðborgarsvæðinu.
Óskar Reykdalsson, forstjóri Heilsugæslunnar á höfuðborgarsvæðinu. Vísir/Vilhelm

Frá 4. janúar 2021 munu konur geta pantað tíma í skimun fyrir leghálskrabbameini á heilsuvera.is eða á næstu heilsugæslustöð. Þá munu þær sem sækja reglubundna skimun vegna krabbameins í brjóstum getað pantað tíma hjá Samhæfingarstöð krabbameinsskimana frá 6. janúar nk.

Krabbameinsskimanir flytjast um áramótin frá Leitarstöð Krabbameinsfélagsins og til Landspítala og Heilsugæslunnar. Landspítali mun sjá um leit að krabbameini í brjóstum en heilsugæslustöðvarnar um leit að krabbameini í leghálsi.

Samhæfingamiðstöð krabbameinsskimana mun hafa yfirumsjón með hópleit að krabbameinum á Íslandi. Hún heyrir undir Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins en starfar á landsvísu.

Skimun fyrir krabbameini í brjóstum fer áfram fram í húsnæði Krabbameinsfélagsins í Skógarhlíð, þar til hún flyst á Eiríksgötu 5 á vormánuðum.

Ljósmæður og hjúkrunarfræðingar sem fengið hafa sérstaka þjálfun munu annast sýnatök vegna leghálskrabbameins á heilsugæslustöðvunum.

Sú breyting verður á fyrirkomulagi skimana að HPV-mæling verður fyrsta rannsókn. Þetta mun, að sögn Óskar Reykdalssonar, forstjóra Heilsugæslunnar, auka næmni og verða til þess að 20-30% fleiri svokölluð „sjúkleg sýni“ greinast.

Áætlað er að í um 20% tilvika verði einnig tekið frumusýni.

Framtíðarsýnin er sú að áherslan flytjist yfir á HPV-mælingarnar, sem mun verða til þess að konur geta sjálfar tekið sýni heima. Frumusýnatakan er flóknari og verður áfram á höndum heilbrigðisstarfsmanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×