Innlent

„Fólk þarf að fara að setja sig í vetrar­gírinn“

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Fjölmiðlakonan Ellý Ármanns lét ekki éljaganginn á sig fá í morgun og gerði æfingar ásamt vinkonu við Sólfarið á Sæbrautinni.
Fjölmiðlakonan Ellý Ármanns lét ekki éljaganginn á sig fá í morgun og gerði æfingar ásamt vinkonu við Sólfarið á Sæbrautinni. Vísir/Vilhelm

Það hefur gengið á með éljum á höfuðborgarsvæðinu síðan á tíunda tímanum í morgun og jörð hvítnað eilítið til dæmis í görðum.

Þorsteinn V. Jónsson, veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands, vill þó ekki taka svo djúpt í árinni í samtali við blaðamann að tala um fyrsta snjó vetrarins í höfuðborginni þar sem þetta sé éljaloft og snjórinn stopp svo stutt við. Það hlýni strax aftur á morgun með rigningu.

Hins vegar sé spáð leiðindaveðri á höfuðborgarsvæðinu á miðvikudaginn.

„Það gæti verið slydda og snjókoma í því. Það gæti þá verið meira eitthvað alvöru, sem myndi þekja eitthvað meira. Þannig að þetta sem er núna er bara smá éljaskot, ég myndi ekki beint kalla þetta fyrsta snjóinn fyrst þetta tekur svo fljótt upp,“ segir Þorsteinn en bætir við að þessu geti fylgt hálka, líka í fyrramálið.

„Þannig að fólk þarf að fara að setja sig í vetrargírinn, það er alveg tími til kominn til þess,“ segir Þorsteinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×