Innlent

Full­bókað í auka­flug Icelandair frá Ali­cante

Atli Ísleifsson skrifar
Flogið verður milli Alicante og Keflavíkur annað kvöld.
Flogið verður milli Alicante og Keflavíkur annað kvöld. Vísir/Vilhelm

Fullbókað er í aukaflug Icelandair frá Alicante til Íslands á morgun. Flugfélagið hóf sölu á miðum fyrr í dag og voru miðarnir fljótir að seljast upp.

Ásdís Ýr Pétursdóttir, upplýsingafulltrúi Icelandair, segir að þrýst hafi verið að flugfélagið að bjóða upp á aukaferðir til Íslands fyrir Íslendinga sem búa eða staðsettir eru á Spáni. Útbreiðsla kórónuveirunnar á Spáni er mikil, þar sem um átta þúsund manns hafa smitast og um hundrað látist af völdum veirunnar.

Ásdís Ýr segir að upprunalega hafi átt að fljúga með fólkið í Boeing 757, sem tekur 183 farþega, en eftir að ljóst var hver salan yrði var ákveðið að nýta stærri vél til flugsins. Verður nú flogið með Boeing 767 sem tekur 262 farþega.

Hún segir að ekki hafi verið tekin ákvörðun um það á þessu stigi hvort að boðið verði upp á fleiri flug.

Fimmtán daga útgöngubann tekur gildi á Spáni í fyrramálið þar sem fólk er beðið um að halda sig innandyra og vera ekki á ferli nema til að sinna nauðsynlegum hlutum á borð við matar- og lyfjakaup.

Greint var frá því í gær að ágætlega hafi gengið að koma Íslendingum sem staddir eru erlendis til landsins. Voru þá um 5.400 manns á skrá hjá borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins sem enn voru staddir erlendis.

Pólska flugfélagið LOT var að hefja sölu á miðum í flug milli Varsár og Keflavíkur fyrr í dag. Verður flogið á morgun.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×