Innlent

Segja ræningjann hafa sprittað sig fyrir ránið

Kjartan Kjartansson skrifar
Chido selur mexíkóskan mat við Ægissíðu.
Chido selur mexíkóskan mat við Ægissíðu.

Maður sem framdi vopnað rán á veitingastað í vesturbæ Reykjavíkur í dag er sagður hafa sprittað sig „í bak og fyrir“ áður en hann lét til skarar skríða. Starfsmenn staðarins sakaði ekki og lofa forsvarsmenn fyrirtækisins þá fyrir að hafa sýnt yfirvegun.

Tilkynnt var um rán á veitingastaðnum Chido á Ægissíðu klukkan tvö í dag. Guðmundur Óskar Pálsson, einn eigenda staðarins, sagði Vísi í dag að ræninginn hefði ógnað starfsmanni með hnífi og komist undan með einhverja tugi þúsunda króna. Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu sagði ræningjann enn ófundinn síðdegis í dag.

Í Facebook-færslu veitingastaðarins í kvöld kemur fram að ræninginn hafi hugað að sóttvörnum áður en hann dró upp hníf.

„Merkilegt nokk, gerandinn passaði að spritta sig í bak og fyrir áður en hann lét til skarar skríða,“ segir í færslunni.

Allir starfsmenn staðarins eru sagðir óhultir og hélt staðurinn áfram rekstri í dag.

„Starfsmennirnir okkar sýndu mikla yfirvegun og okkar forgangur númer eitt, tvö og þrjú er að hlúa að þeim enda er þetta afar ógnvekjandi lífsreynsla,“ segir í færslunni.


Tengdar fréttir

Vopnað rán á Chido

Vopnað rán var framið á skyndibitastaðnum Chido á Ægissíðu í Vesturbæ Reykjavíkur um tvöleytið í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×