Innlent

„Fráleit hugmynd sem kemur ekki til greina“

Sunna Sæmundsdóttir skrifar
Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, þingmaður Vinstri grænna, segir fyrirkomlag með vistun flóttamanna sem dómsmálaráðherra vísaði til í gær ekki koma til greina.
Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, þingmaður Vinstri grænna, segir fyrirkomlag með vistun flóttamanna sem dómsmálaráðherra vísaði til í gær ekki koma til greina. vísir/vilhelm

Hugmyndin um afmarkað svæði fyrir flóttmenn sem bíða brottvísunar er fráleit og kemur ekki til greina að sögn þingmanns Vinstri grænna. Dómsmálaráðherra vísaði í gær til slíkrar framkvæmdar erlendis.

Þingfundur hófst í morgun með umræðum um störf þingsins þar sem Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, þingmaður Vinstri grænna, sagði fyrirkomulag um vistun flóttamanna sem Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, dómsmálaráðherra, vísaði til í pontu í gær ekki koma til greina.

Í óundirbúnum fyrirspurnartíma í gær spurði Birgir Þórarinsson, þingmaður Miðflokksins, ráðherra um eftirlit með fólki sem á að vísa úr landi. Áslaug sagði verkferla stoðdeildar ríkislögreglustjóra til skoðunar.

„Víða í löndunum í kringum okkur er þessu háttað þannig að aðilar eru á ákveðnu svæði eftir að þeir fá til dæmis neitun frá báðum stjórnsýslustigum til að það sé hægt að framkvæma þetta með auðveldari hætti og það gerist þá ekki að aðilar séu týndir inn í samfélaginu,“ sagði Áslaug Arna í gær.

„Það sem um ræðir er ekkert annað en flóttamannabúðir eða fangelsi og það kemur ekki til greina að setja slíkar á laggirnar af hálfu þingflokks Vinstri grænna,“ sagði Bjarkey Olsen.

Hún benti á að ráðherra hefði vísað til þess að lagabreytingu þyrfti til að koma slíku í framkvæmd. Slíkt mál væri ekki að finna á þingmálaskrá ráðherra.

„Og þó að þingmálaskrá sé oft uppfærð með tilliti til stöðunnar í samfélaginu myndi afstaða Vinstri grænna ekki breytast ef slíkt mál myndi birtast þar.“

„Því að þetta er fráleit hugmynd og hún kemur ekki til greina,“ sagði Bjarkey Olsen.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×