Erlent

Annar stór eldsvoði blossar upp á höfninni í Beirút

Kjartan Kjartansson skrifar
Ríkisfréttastofa Líbanons segir að eldurinn hafi kviknað í rústum vöruhúss þar sem dekk voru geymd.
Ríkisfréttastofa Líbanons segir að eldurinn hafi kviknað í rústum vöruhúss þar sem dekk voru geymd. AP/Hussein Malla

Eldur logar nú í olíu- og dekkjageymslu á hafnarsvæðinu í Beirút, aðeins mánuði eftir að gríðarlega öflug sprenging þar olli mannskaða og eignartjóni. Engar fréttir hafa borist af mannskaða nú en eldurinn er sagður hafa slegið borgarbúa óhug.

AP-fréttastofan segir að upptök eldsins nú séu ekki ljós. Svartan reyk leggi frá geymslunni og logar gangi upp úr jörðinni. Slökkviliðsstarfs stendur enn yfir og hafa herþylur meðal annars verið notaðar til þess.

Óttaslegnir borgarbúar eru sagðir hafa opnað glugga og hrópað viðvörunarorð um að annar eldur væri kviknaður á höfninni. Starfsmenn fyrirtækja í grenndinni hafa verið beðnir um að yfirgefa svæðið og hermenn vísa umferð frá því.

George Kettaneh, yfirmaður Rauða krossins í Líbanon, segir að ekki sé talin hætta á annarri sprengingu vegna eldsins og enginn sé slasaður. Einhverjir hafi fundið fyrir mæði vegna reyksins, segir hann við Reuters-fréttastofuna.

Fleiri en 190 manns fórust og um 6.500 manns slösuðust í sprengingunni 4. ágúst. Þá skemmdust þúsundir bygginga. Sprengingin varð eftir að eldur komst í mikið magn ammóníumnítrats, sprengifims efnis, sem hafði verið geymt á höfninni við óviðunandi aðstæður um árabil þrátt fyrir viðvaranir embættismanna.


Tengdar fréttir

Varaðir við hættunni í síðasta mánuði

Forsætisráðherra og forseti Líbanon voru varaðir við því í síðasta mánuði að 2.750 tonn af ammóníum nítrati, sem finna mátti í vöruskemmu við höfn Beirút, væri ógn við borgina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×