Veiði

Hreinsum Elliðaárnar saman þann 11. júní

Karl Lúðvíksson skrifar
Elliðaárnar og dalurinn dregur að gesti allt sumarið.
Elliðaárnar og dalurinn dregur að gesti allt sumarið. Mynd: KL
Elliðaárnar og útivistarsvæðið í Elliðaárdalnum er afar vinsælt útivistarsvæði sem allir geta notið og það að svæðið sé hreint og snyrtilegt er okkar allra mál.

Stangaveiðifélag Reykjavíkur hefur um árabil staðið fyrir hreinsunardegi við ánna og hvatt félagsmenn sína til að taka þátt í því starfi en Veiðivísir vill líka hvetja alla aðra sem unna dalnum að mæta og leggja sitt af mörkum til að Elliðaárdalurinn verði hreinn og fínn fyrir alla að njóta í sumar. Hér er tilkynning frá SVFR:

"Hin árlega hreinsun Elliðaánna sem er viðburður á vegum Stangaveiðifélags Reykjavíkur, fer fram fimmtudaginn 11. júní nk. Hreinsunarverkefnið verður gangsett við veiðihúsið í Elliðaárdal klukkan 17.00.

Árnefnd Elliðaánna annast skipulagningu og utanumhald þessa verkefnis og er þess vænst að félagsmenn í Stangaveiðifélagi Reykjavíkur og aðrir velunnarar Elliðaánna taki þátt í þessu verkefni. Gert er ráð fyrir að hreinsun verði lokið um kl. 20.00.

Verkefnum verður deilt á milli þátttakenda við veiðihúsið kl. 17.00 og þeim falin tiltekin svæði við Elliðaárnar, en víða er að finna rusl og annan óþrifnað í og með ánum. Verkefnið er að gera umhverfi ánna eins snyrtilegt og kostur er og SVFR til sóma.

Þátttaka í þessu verkefni hefur farið vaxandi undanfarin ár og hafa fjölmargir félagsmenn brugðist vel við ákalli SVFR um þátttöku. Öllum er frjálst að leggja hönd á plóg enda eru allir velunnarar Elliðaánna velkomnir. Þátttakendur eru hvattir til þess að vera í klofstígvélum eða vöðlum, þar sem gjarnan þarf að hirða rusl úr árfarveginum. Einnig er fólk hvatt til að búa sig eftir aðstæðum að öðru leyti. Stangaveiðifélag Reykjavíkur hvetur félagsmenn sína sem og aðra vini Elliðaánna til þátttöku í hreinsunarátakinu."
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.