Atvinnulíf

Á sextugsaldri í atvinnuleit: Þrjú góð ráð

Rakel Sveinsdóttir skrifar
Það er rótgróin mýta að fólk sé síður ráðið í ný störf ef það er fimmtugt eða eldra. 
Það er rótgróin mýta að fólk sé síður ráðið í ný störf ef það er fimmtugt eða eldra.  Vísir/Getty

Það er rótgróin mýta að fólk yfir fimmtugt sé ekki ráðið í störf. Þess vegna skiptir miklu máli fyrir fólkt sem er á sextugsaldri og í atvinnuleit, hefji þá vegferð með réttu hugarfari. Því auðvitað eru margir vinnustaðir sem horfa sérstaklega til þeirra sem eru fimmtugir og eldri, með góða reynslu að baki, góð meðmæli og búin að fara í gegnum þau tímabil sem kalla oftar á heimaviðveru, s.s. vegna veikinda barna, skólafría og fleira.

Hér eru þrjú góð ráð fyrir fólk sem er í atvinnuleit og yfir fimmtugt.

1. Síðustu tíu til fimmtán árin (max)

Mikilvægt er að leggja góða vinnu í ferilskránna og passa að hún sé ekki meira en ein til tvær A4 síður þótt starfsferillinn sé langur.

Í ferilskránni er best að leggja áherslu á síðasta áratug, eða í mesta lagi starfsreynsluna síðustu fimmtán árin ef þér finnst það skipta máli. Störf eða verkefni fyrir þann tíma skaltu tilgreina án þess að lýsa þeim í þaula. Undantekning á þessu er ef þú ert að sækja um starf þar sem reynsla fyrir þennan tíma skiptir máli.

Þá er gott að draga fram verkefni eða lausnir sem þú hefur unnið að fyrir fyrri vinnuveitendur og skilað þeim miklum árangri.

2. Tæknikunnáttan

Mikilvægt er að taka fram þekkingu á tæknimálum því oft er hún meiri en margur heldur. Hér skiptir þá mestu máli að tilgreina tækni sem verið er að nýta í dag en ekki kerfi sem eru úr sér gengin. Ef þú ert fljót/ur að tileinka þér nýja tækni eða átt auðvelt með að læra á nýjungar, taktu það vel fram.

Ef þú telur æskilegt fyrir þig að vera betur að þér í einstaka kerfum, forritum eins og excel og fleira, er um að gera að nýta tímann á meðan þú ert í atvinnuleit og reyna að læra sem mest. Það er ótrúlega margt hægt að læra með því að afla sér upplýsinga á netinu, án tilkostnaðar.

Passaðu það líka að persónulega netfangið þitt hafi ekki gamaldags ásýnd eða styðjist við lén sem flestir eru hættir að nota. Gmail netfang er algengast í dag.

3. Samfélagsmiðlar eru ekki bara fyrir ungt fólk

Ungt fólk er nokkuð meðvitað um það að það hvað er birt á samfélagsmiðlum getur skipt máli fyrir ráðningu í starf. Þetta á ekkert síður við um fólk sem er eldra en fimmtugt og því er um að gera að birta myndir og stöðufærslur (í hófi) á samfélagsmiðlum, sem gefa þér góða ásýnd fyrir framtíðarvinnuveitanda. Hér er þá um að gera að birta fleiri myndir en aðeins af afa eða ömmubörnunum!

Eins færist í aukana að Íslendingar nýti LinkedIn sem samfélagsmiðil í atvinnu- og viðskiptalífi. Þar er þá hægt að setja inn enn meiri upplýsingar úr ferilskrá. Það fer þó eftir því á hvaða starfsvettvangi þú ert að þreifa fyrir þér, hvort LinkedIn eigi við. Hér gilda sömu reglur og við gerð góðrar ferilskráar: Það þarf að vanda vel til verka.

Síðan er um að gera að setja smá stolt í reynsluna sem þú hefur umfram þér yngra fólk. Þá er ágætt að horfa til vinnustaða sem augljóslega leggja áherslu á fjölbreytni starfsfólks, þar með talið að vera með starfsfólk á mismunandi aldri. Á krepputímum skiptir líka miklu máli að vera opin fyrir nýjum hugmyndum eða tækifærum.

Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.