Körfubolti

Hélt ræðu á minningarathöfninni um Kobe og náði einstöku afreki nokkrum tímum síðar

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sabrina Ionescu var góður vinur Kobe Bryant og fékk góð ráð frá honum.
Sabrina Ionescu var góður vinur Kobe Bryant og fékk góð ráð frá honum. Getty/Cody Glenn

Körfuboltakonan Sabrina Ionescu náði sögulegu og einstöku afreki í bandaríska háskólakörfuboltanum í nótt þegar hún varð fyrsti meðlimurinn í 2000-1000-1000 klúbbnum. Enginn karl og enginn kona höfðu náð þessu áður.

Sabrina Ionescu var góður vinur Kobe Bryant og dóttur hans Gigi en Sabrina er framtíðar súperstjarna WNBA-deildarinnar miðað við það sem hún hefur sýnt í bandaríska háskólakörfuboltanum síðustu árin.


Sabrina Ionescu mætti á minningarhátíð um Kobe Bryant í gær og hélt meðal annars ræðu þar sem hún talaði um Kobe og þrettán ára dóttur hans Gigi. Kobe Bryant hafði greint hennar leik og gefið henni dýrmæt ráð.

Hér fyrir neðan má sjá þessa frábæru körfuboltakonu flytja ræðu til heiðurs vina sinna Kobe og Giönnu Bryant.


Aðeins nokkrum tímum eftir minningarhátíðina var Sabrina Ionescu síðan mætt inn á völlinn og hún heiðraði Kobe Bryant þar líka með því að ná sinni 26. þrennu á háskólaferlinum.

Ionescu endaði leikinn með 21 stig, 12 fráköst og 12 stoðsendingar. Þetta var áttunda þrenna hennar á tímabilinu en með því jafnaði hún sitt eigið met síðan í fyrra.


Það var hins vegar níunda frákastið hennar í leiknum sem sá til þess að hún er búin að afreka það sem engum körfuboltamanni, karli eða konu, hefur tekist í 1. deild bandaríska háskólakörfuboltans.

Á næstum því fjórum árum sínum með Oregon háskólaliðinu hefur Sabrina Ionescu tekist að skorað yfir tvö þúsund stig, taka yfir þúsund fráköst og gefa yfir þúsund stoðsendingar.


Sabrina Ionescu var tekin í viðtal hjá ESPN eftir leikinn eins og sjá má hér fyrir ofan. „Þetta var fyrir hann (Kobe). Það var risastórt fyrir mig að ná þessu á 24.2. Ég og hann (Kobe) töluðum um það á undirbúningstímabilionu að ég myndi ná þessu. Ég veit að hann horfir stoltur niður á mig og ég er mjög ánægð með að ná þessu,“ sagði Sabrina Ionescu.

Það búast allir við því að Sabrina Ionescu verði valin fyrst í nýliðavali WNBA í apríl. Hún átti möguleika á að fara í WNBA-deildina eftir síðasta tímabil en valdi það frekar að klára skólann.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.