Körfubolti

Kawhi Leonard fyrstur til að fá Kobe Bryant bikarinn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Kawhi Leonard með Kobe Bryant bikarinn eftir Stjörnuleik NBA deildarinnar í nótt.
Kawhi Leonard með Kobe Bryant bikarinn eftir Stjörnuleik NBA deildarinnar í nótt. Getty/ Jesse D. Garrabrant

Kawhi Leonard var sjóðheitur fyrir utan þriggja stiga línuna þegar lið LeBron James vann nauman sigur í æsispennandi Stjörnuleik NBA-deildarinnar í körfubolta í nótt.

Lið LeBron James sem lék undir merkjum Giönnu Bryant vann lið Giannis Antetokounmpo 157-155 en leikið var undir nýjum reglum og til heiðurs Kobe Bryant. Lið Giannis Antetokounmpo lék undir merkjum Kobe Bryant.

Fyrir leikinn var það tilkynnt að verðlaunin fyrir mikilvægasta leikmann Stjörnuleiksins bæru hér eftir nafn Kobe Bryant og Kawhi Leonard fékk þau fyrstur alla. Kawhi Leonard skoraði 30 stig í leiknum og hitti úr 8 af 14 þriggja stiga skotum sínum.

„Þetta skiptir mig miklu máli. Ég á ekki orð til að lýsa því. Að vinna fyrsta Kobe Bryant bikarinn. Ég vil þakka Kobe fyrir allt sem hann gerði fyrir mig. Öll löngu spjöllin og æfingarnar. Takk fyrir. Þetta er fyrir hann,“ sagði Kawhi Leonard eftir leikinn.Nýju reglurnar voru þannig að eftir þrjá aðskilda leikhluta sem allir byrjuðu í 0-0 þá var spilað upp í 157 stig í lokaleikhlutanum. Liðin hans Giannis Antetokounmpo var 133-124 yfir eftir fyrstu þrjá leikhlutana og þurftu LeBron James og félagar því að skora 33 stig til að vinna leikinn. Það tókst.

Breytingarnar heppnuðust mjög vel og leikmenn líktu andrúmsloftinu eftir leik eins og að þetta hafi verið leikur í úrslitakeppni. Með því að keppa á fullu fram á síðustu sekúndu þá heiðruðu þeir minningu Kobe Bryant líklega best enda var Kobe þekktur fyrir keppnishörku sína.

LeBron James var með 23 stig, 6 stoðsendingar og 5 fráköst, Anthony Davis skoraði 20 stig og tók 9 fráköst og Chris Paul kom af bekknum með 23 stig og 6 stoðsendingar á 26 mínútum. Ben Simmons var líka flottur með 17 stig, 6 fráköst og 5 stoðsendingar á 29 mínútum.

Hjá liði Giannis Antetokounmpo var Giannis sjálfur atkvæðamestur með 25 stig, 11 fráköst og 4 stoðsendingar en Kemba Walker skoraði 23 stig og Joel Embiid var með 22 stig og 10 fráköst. Rudy Gobert kom líka af bekknum með 21 stig og 11 fráköst á 19 mínútum.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.