Atvinnulíf

Sex prósent af veltu íslenskra fyrirtækja er í gegnum vefsíður eða öpp

Rakel Sveinsdóttir skrifar
Mikil tækifæri geta falist í því að selja vörur og þjónustu í gegnum vefsíður eða öpp.  Á Íslandi er hlutfall fyrirtækja sem selja á netinu 21%.
Mikil tækifæri geta falist í því að selja vörur og þjónustu í gegnum vefsíður eða öpp. Á Íslandi er hlutfall fyrirtækja sem selja á netinu 21%. Vísir/Getty

Sala íslenskra fyrirtækja á vörum og þjónustu árið 2019 í gegnum vefsíður eða öpp nam 6% af rekstrartekjum þeirra.  Þar af var 68% í gegnum eigin vefsíður eða öpp og 32% í gegnum almennar sölusíður.  Þetta kemur fram í tölum frá Hagstofu Íslands.

Sem hlutfall af veltu er sala í gegnum netið nokkuð lægra hjá íslenskum fyrirtækjum í samanburði við nágrannalöndin þar sem algengt er að netverslun nemi um 10% af heildarveltu.

Hlutfallslega eru nokkuð fleiri fyrirtæki í nágrannalöndunum sem selja vöru eða þjónustu í gegnum vefsíður eða öpp.  Þannig sýndu niðurstöður rannsóknar sem gerð var af Hagstofu Evrópusambandsins, Eurostat, að árið 2018 seldu 30% fyrirtækja á Írlandi í gegnum netið, 26% fyrirtækja í Svíþjóð og 25% fyrirtækja í Noregi og Danmörku.  

Á Íslandi nam þetta hlutfall 21% árið 2019.  Þá seldu 430 af 2023 fyrirtæki vörur eða þjónustu í gegnum vefsíður eða öpp.  

Í úrtaki töldust þó ekki með fyrirtæki sem telja 10 eða færri starfsmenn né fyrirtæki í fjármálastarfsemi, landbúnaði, fiskveiðum, skógrækt eða úrvinnslu hráefna úr jörðu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×