Jól

Þrettánda­gleði víða á höfuð­borgar­svæðinu í dag

Nadine Guðrún Yaghi skrifar
Þrettaándagleði verður á tveimur stöðum í borginni í dag, í Grafarvogi og í Vesturbænum.
Þrettaándagleði verður á tveimur stöðum í borginni í dag, í Grafarvogi og í Vesturbænum. vísir/vilhelm

Þrettándagleði verður haldin víða á höfuðborgarsvæðinu í dag þar sem fólk kemur saman með kyndla, skýtur upp flugeldum og kveður jólin.

Á þrettándanum kveður fólk jólahátíðina og síðasti jólasveinninn heldur til fjalla og spyrst þá ekkert til þeirra bræðra fyrr en um næstu jól. Þrettándinn hefur líka verið varadagur fyrir brennur og flugelda ef illa hefur viðrað um áramót.

Jólin verða kvödd með dansi og söng á þrettándagleði á Ásvöllum í Hafnarfirði í klukkan sex í kvöld og einnig verður þrettándabrenna Mosfellsbæjar á sínum stað þar sem búast má við stórglæsilegri flugeldasýningu klukkan 18.

Þrettaándagleði verður á tveimur stöðum í borginni í dag, í Grafarvogi og í Vesturbænum.

Jón Halldór Jónsson veit allt um málið en hann er upplýsingafulltrúi Reykjavíkurborgar. „Í Grafarvogi, þetta verður haldið við Gufunesbæ, og það verður kakó- og vöfflusala frá klukkan fimm í dag og svo rétt fyrir klukkan sex verður blysför með Skólahljómsveit Grafarvogs.“

Kveikt verður svo á brennunni á slaginu sex. Þá verður flugeldasýning klukkan hálf sjö.

„Í Vesturbænum þá hefst hátíðin við Melaskóla klukkan sex. Þar verða ungmenni sem leiða fjöldasöng og svo er gengið með kyndla að brennunni sem verður við Ægissíðu. Þar verður borinn eldur að kestinum og flugeldum skotið upp,“ segir Jón Halldór Jónsson, upplýsingafulltrúi Reykjavíkurborgar.






×