Innlent

Ráðherra sagður hafa sagt Ólafi Helga að fara til Eyja

Kjartan Kjartansson skrifar
Ólafur Helgi Kjartansson, lögreglustjórinn á Suðurnesjum, og Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, dómsmálaráðherra.
Ólafur Helgi Kjartansson, lögreglustjórinn á Suðurnesjum, og Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, dómsmálaráðherra.

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, dómsmálaráðherra, er sögð hafa tilkynnt Ólafi Helga Kjartanssyni, lögreglustjóra á Suðurnesjum, um flutning hans til Vestmannaeyja. Styr hefur staðið um störf Ólafs Helga hjá lögreglunni á Suðurnesjum.

Fréttablaðið segist hafa heimildir fyrir því að ráðherra hafi sent lögreglustjóranum formlegt bréf þessa efnis og að flutningurinn til Vestmannaeyja eigi að taka gildi þegar um mánaðamótin.

Ólafur Helgi vildi hvorki staðfesta að ráðherra hefði beðið sig um að taka við embættinu í Eyjum né tjá sig frekar um málið í dag. Ekki náðist strax í Áslaugu Örnu eða aðstoðarmann hennar við vinnslu þessarar fréttar.

Áður hefur verið greint frá því að Áslaug Arna hafi rætt við Ólaf Helga um að hann láti af störfum en að hann hafi ekki orðið við því. Þá hefur verið sagt frá hörðum deilum innan embættisins. Hópur yfirmanna hafi kvartað undan lögreglustjóranum til ráðuneytisins.

Áslaug Arna hefur ekki viljað tjá sig um mál lögreglunnar á Suðurnesjum fram að þessu.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×