Viðskipti innlent

Segjast opna „Ísflix“ í lok ágúst

Kjartan Kjartansson skrifar
Jón Kristinn Snæhólm (t.v.) og Ingvi Hrafn Jónsson, hér á setti Hrafnaþings, eru tveir af hvatamönnum Ísflix.
Jón Kristinn Snæhólm (t.v.) og Ingvi Hrafn Jónsson, hér á setti Hrafnaþings, eru tveir af hvatamönnum Ísflix. Hrafnaþing

Aðstandendur Ísflix, sem er sögð vera ný íslensk efnisveita, segja að hún verði opnuð í lok ágúst. Öllum stjórnmálaflokkum sem eiga sæti á Alþingi hafi verið boðið að hafa vikulega þætti þar. Upphaflega stóð til að hleypa þjónustunni af stokkunum í fyrra.

Í tilkynningu frá aðstandendum verkefnisins segir að Ísflix verði „efnisveita“ og vefsíða og hún opni 28. ágúst. Fullyrt er að Ísflix verði „fyrsta einungis ólínulega efnisveitan á Íslandi“. Markmiðið með henni sé að vera „opinn vettvangur frjórrar lýðræðislegrar umræðu um íslensk þjóðfélags- og menningarmál“.

Sjá einnig: Ísflix Ingva Hrafns boðar samkeppni við risana

Í því skyni ætlar Ísflix að bjóða upp á „opinn míkrófón og myndavél fyrir það nýjasta og áhugaverðasta sem er að gerast á Íslandi“ og auðvelda þannig einstaklingum, hópum og félagasamtökum aðgang að efnisveitu sem sé aðgengileg án endurgjalds.

Ætlunin er sögð að bjóða upp á spjallþætti, heimildarþætti og hlaðvörp. Til þess að auðvelda aðgang að Ísflix segjast aðstandendurnir hafa þróað snjallforrit fyrir flest snjalltæki eins og tölvur, síma og sjónvörp.

Upphaflega stóð til að Ísflix hæfi starfsemi 1. nóvember í fyrra en þau áform gengu ekki eftir. Í viðtali við Vísi í byrjun desember sagði Jón Kristinn Snæhólm, einn af aðstandendum Ísflix, að þeir hefðu sankað að sér margvíslegu, borgaralegu sjónvarpsefni fyrir efnisveituna, þar á meðal „töluvert af stöffi frá Hannesi Hólmsteini [Gissurarsyni] um pólitík“.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×