Innlent

Um tuttugu til­kynningar vegna heima­sam­kvæma

Sylvía Hall skrifar
Sex voru vistaðir í fangageymslu eftir nóttina.
Sex voru vistaðir í fangageymslu eftir nóttina. Vísir/Vilhelm

21 tilkynning barst lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu í gærkvöldi og í nótt vegna samkvæmishávaða. 93 mál voru bókuð frá klukkan 17 í gær til klukkan fimm í nótt og voru sex vistaðir í fangageymslu. Einn var handtekinn fyrir heimilisofbeldi.

Skömmu fyrir klukkan níu í gærkvöldi var tilkynnt um þjófnað úr verslun í austurhluta borgarinnar. Á tíunda tímanum var svo tilkynnt um mann sem hafði verið að stela úr bifreið í Laugardalnum.

Rétt eftir klukkan tíu var tilkynnt um tilraun til innbrots í íbúðarhúsnæði í miðbæ Reykjavíkur. Þegar lögreglu bar að garði hafði meintur innbrotsþjófur farið af vettvangi.

Lögregla hafði afskipti af nokkrum ökumönnum víða um borgina vegna gruns um akstur undir áhrifum áfengis eða fíkniefna eða vegna hraðaksturs. Flestum var þó sleppt eftir sýnatöku.

Tvær líkamsárásir komu á borð lögreglu í gærkvöldi og í nótt, sú fyrri í Mosfellsbæ á áttunda tímanum í gærkvöldi og en sú seinni í miðbæ Reykjavíkur um klukkan hálf eitt í nótt. Sá sem varð fyrir árásinni í miðbænum er líklega handleggsbrotinn að því er segir í dagbók lögreglunnar.

Þá var lögregla kölluð til vegna nágrannaerja í Breiðholti um kvöldmatarleytið í gær.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×