Heimsmarkmiðin

Líklegt að hungruðum fjölgi um hundrað milljónir á árinu

Heimsljós
Hungraðir eru flestir í Asíuríkjum en fjölgar hins vegar mest í Afríku.
Hungraðir eru flestir í Asíuríkjum en fjölgar hins vegar mest í Afríku. gunisal

Talið er að 83 til 132 milljónir manna bætist í hóp hungraðra á árinu vegna beinna og óbeinna afleiðinga kórónaveirunnar. Á síðasta ári drógu 690 milljónir jarðarbúa fram lífið við hungurmörk en þeim fjölgar óumflýjanlega á þessu ári og þar með fjarlægist annað heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um útrýmingu hungurs fyrir árið 2030. Frá þessu greinir í nýrri alþjóðlegri árlegri skýrslu um stöðu fæðuöryggis og næringar í heiminum – The State of Food Security and Nutrition in the World.

Hungraðir eru flestir í Asíuríkjum en fjölgar hins vegar mest í Afríku. „Í árslok 2020 er líklegt að COVID-19 heimsfaraldurinn hafi leitt til þess að yfir 100 milljónir manna hafi bæst í hóp hungraðra. Hátt verð og auraleysi hefur líka í för með sér að milljarðar manna á þess ekki kost að neyta heilsusamlegrar næringarríkrar fæðu,“ segir í skýrslunni.

Skilgreining á sárafátækt miðast við að daglaun séu ekki hærri en 265 krónur íslenskar, eða 1,90 bandarískir dalir. Í skýrslunni eru færðar sönnur fyrir því að heilsusamleg fæða kosti meira en nemur fyrrnefndum viðmiðunarmörkum. Þar segir að þrír milljaðrar manna, eða fleiri, hafi ekki ráð á heilsusamlegu fæði. „Í Afríku sunnan Sahara og í sunnanverðri Asíu gildir þetta um 57% íbúanna – en enginn heimshluti er undanskilinn, hvorki Norður-Ameríka eða Evrópa.“

Skýrslan er gefin út af fimm alþjóðastofnunum, Matvæla- og landbúnaðarstofnun Sameinuðu þjóðanna (FAO), Alþjóðasjóði um þróun landbúnaðar (IFAD), Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna (UNICEF), Matvælaáætlun Sameinuðu þjóðanna (WFP) og Alþjóðaheilbrigðisstofnuninni (WHO).



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.



×