Erlent

Þrír ættliðir frægrar fjölskyldu smitaðir

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Abhishek Bachchan og Aishwarya Rai Bachchan ásamt dótturinni Aaradhya. Þau greindust öll með kórónuveiruna nú um helgina.
Abhishek Bachchan og Aishwarya Rai Bachchan ásamt dótturinni Aaradhya. Þau greindust öll með kórónuveiruna nú um helgina. Vísir/getty

Kórónuveiran greindist um helgina í þremur ættliðum Bachchan-fjölskyldunnar, einnar frægustu fjölskyldu Indlands.

Aishwarya Rai Bachchan, Bollywood-leikkona og fyrrverandi Ungfrú heimur, og dóttir hennar, hin átta ára Aaradhya, greindust í dag með veiruna. Áður höfðu eiginmaður Aishwarya, leikarinn Abihshek Bachchan, og faðir hans, Amitabh Bachchan, einn frægasti Bollywood-leikari sinnar kynslóðar, greinst með veiruna og voru fluttir á sjúkrahús í gær en báðir þó með væg einkenni.

Aishwarya er 46 ára og ein frægasta kona Indlands. Hún hefur gert garðinn frægan í Bollywood, sem og Hollywood, auk þess sem hún vann fegurðarsamkeppnina Ungfrú heimur árið 1994. Aishwarya og dóttir hennar eru sagðar einkennalausar og í einangrun heima hjá sér.

Amitabh Bachchan.Vísir/getty

Amitabh Bachchan er 77 ára og einnig gríðarvinsæll í heimalandinu, líkt og tengdadóttirin. Hann greindi frá niðurstöðum kórónuveiruprófsins á Twitter í gær, þar sem hann státar af milljónum fylgjenda.

„Ég fékk jákvæða niðurstöðu úr Covid-prófi, fluttur á spítala, spítalinn upplýsir yfirvöld, fjölskylda og starfslið skimað, beðið eftir niðurstöðu,“ skrifaði Bachchan. Aðdáendur fjölskyldunnar hafa látið batakveðjum rigna yfir þau sjúku og þá lét heilbrigðisráðherrann Harsh Vardhan ekki sitt eftir liggja í þeim efnum.

„Ég, ásamt þjóðinni allri, óska þér skjóts bata! Þú ert fyrirmynd milljóna í þessu landi, ódauðleg ofurstjarna! Við munum sjá vel um þig. Bestu óskir um skjótan bata!“ skrifaði Vardhan á Twitter-reikningi sínum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×