Veiði

Vikulegar veiðitölur segja ekki allt

Karl Lúðvíksson skrifar
Ásgeir Heiðar með lax úr Eystri Rangá sem klárlega vegur meira en 20 pund
Ásgeir Heiðar með lax úr Eystri Rangá sem klárlega vegur meira en 20 pund Mynd: Bjarni Júlíusson

Á miðvikudagskvöldið kom eins og venjulega uppfærður listi af veiðitölum úr laxveiðiánum og það er ljómandi gangur í mörgum ánum.

Eystri Rangá flýgur upp listann enda hafa verið að veiðast um 100 laxar á dag í henni og það er mikið magn af fiski í ánni. Veiðin gæti verið enn hærri ef full nýting væri á stöngunum en vegna Covid eru, eins og hefur verið rætt, töluverð afföll á erlendum veiðimönnum. Eystri Rangá er komin í 667 laxa og verður án efa komin yfir 1.000 laxa þegar helgin verður liðin.

Veiðin í Urriðafossi er búin að vera góð og er svæðið komið í 589 laxa á aðeins fjórar stangir sem er svipaður taktur og var í ánni 2018 þegar veiðin fór í 1.320 laxa. Norðurá er svo í þriðja sætinu með 404 laxa sem í samanburði við 2018 er um helmingurinn af veiðinni þá en þar, eins og í vel flestum stærri ánum er stangarnýting ekki alltaf góð þar sem erlendir veiðimenn eru ekki að mæta og oft með litlum fyrirvara. Þá er erfitt að manna þessar stangir og áin rennur oft aðeins veidd á 40-50% af stöngunum.

Umræða um að veiðin sé léleg er því á töluverðum villigötum þar sem veiðitölurnar gefa alls ekki rétta mynd af stöðunni í ánum. Undirritaður var að koma úr Langá á Mýrum þar sem um 900 laxar eru gengnir í gegnum teljarann og veiðin í ánni núna 153 laxar en var á sama tíma 2015 mjög svipuð eða 130 laxar. Veiðin í ánni sumarið 2015 endaði í 2.616 löxum svo allar fullyrðingar um að framundan sé dræm veiði eiga ekki við rök að styðjast. 

Listinn frá Landssambandi Veiðifélaga er í heild sinni á www.angling.is
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.