Innlent

Þórhildur Sunna segir af sér formennsku

Sylvía Hall skrifar
Þórhildur Sunna Ævarsdóttir.
Þórhildur Sunna Ævarsdóttir. vÍSIR/VILHELM

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir hefur sagt af sér sem formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar. Hún segir meirihlutann hafa dregið persónu sína sífellt í svaðið og notað hana sem blóraböggul.

Þetta tilkynnti Þórhildur Sunna á þinginu nú fyrir skömmu.

Þórhildur Sunna sakaði meirihluta nefndarinnar um að standa í vegi fyrir athugun á hæfi Kristjáns Þórs vegna Samherja og gagnrýndi forsætisráðherra fyrir að telja þá niðurstöðu að frumkvæðisathugun hafi verið sett á ís vera góða. 

Hún sagði meirihlutann sífellt hafa dregið persónu hennar í svaðið og að „varðhundar valdsins“ væru sannarlega enn til staðar. Henni væri vægast sagt misboðið.

„Þessi aðferðafræði, að skjóta sendiboðann, er þaulreynd þöggunar- og kúgunartaktík. Ég mótmæli þessari aðför, mér misbýður þetta leikrit og ég ætla ekki að taka þátt í því lengur. Meirihlutinn verður að finna sér aðrar átyllur til þess að réttlæta aðför sína að eftirlitshlutverki nefndarinnar,“ sagði Þórhildur.

„Formennsku minni í þessari nefnd er hér með lokið.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×