Erlent

Unnu skemmdarverk á styttu af umdeildum rithöfundi sem þau kalla rasista og nauðgara

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Hér má sjá styttuna útataða í málningu.
Hér má sjá styttuna útataða í málningu. MOURAD BALTI TOUATI/EPA

Mótmælendur í Mílanó á Ítalíu sem mótmælt hafa kynþáttafordómum hafa unnið skemmdarverk á styttu af ítalska blaðamanninum Indro Montanelli. Styttan var þakin blóðrauðri málningu og orðin „rasisti“ og „nauðgari“ voru rituð á stall sem styttan stendur á.Það er krafa mótmælenda að styttan verði fjarlægð úr garði sem nefndur er eftir Montanelli, og að nafni garðsins verði breytt.

Montanelli, sem lést árið 2001, viðurkenndi á sínum tíma að hafa keypt tólf ára stúlku frá Erítreu og kvænst henni, þegar hann var í ítalska hernum á fjórða áratug síðustu aldar. Þá varði hann einnig nýlendustefnu í skrifum sínum.

Mótmælendahópurinn sem vann skemmdarverk á styttunni segja Montanelli hafa verið „nýlendusinna sem gerði þrælahald stóran hluta af sinni pólitísku stefnu.“ Eins sögðu mótmælendur að ekki ætti að hampa slíkum mönnum á opinberum stöðum.

Giuseppa Sala, borgarstjóri Mílanó, hefur hins vegar sagt að styttan væri viðurkenning á óumdeilanlegum afrekum Montanelli á sviði blaðamennsku.

„Hann var frábær blaðamaður sem barðist fyrir frelsi fjölmiðla. Þegar við lítum yfir æviskeið okkar, getum við þá sagt að það sé óflekkað? Líf manna eru dæmd í öllum sínum fjölbreytileika,“ hefur breska ríkisútvarpið eftir Sala.

Sjálfboðaliðar sjást hér þrífa styttuna.Andrea Fasani/EPA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×