Erlent

Tékkar loka landa­mærunum

Atli Ísleifsson skrifar
Andrej Babis, forsætisráðherra Tékklands, kynnti aðgerðirnar á fréttamannafundi í hádeginu.
Andrej Babis, forsætisráðherra Tékklands, kynnti aðgerðirnar á fréttamannafundi í hádeginu. EPA

Stjórnvöld í Tékklandi hafa bannað komu erlendra ríkisborgara til landsins frá mánudeginum. Tékkum verður sömuleiðis meinað að ferðast til útlanda.

Andrej Babis, forsætisráðherra Tékklands, greindi frá þessu í dag og er þetta gert til að hefta útbreiðslu kórónuveirunnar.

Reuters greinir frá því að undanþágur verði á reglunum þar sem stjórnvöld reyni að tryggja áframhaldandi inn- og útflutning vara. Vöruflutningar verða áfram heimilaðir. Þá verði fólki sem býr nærri landamærum og starfar í öðru landi heimilað að fara yfir landamærin, að því gefnu að vinnustaðurinn sé innan við 50 kílómetrum frá landamærunum.

Allir þeir Tékkar sem snúa heim frá einhverju landa á fimmtán landa lista – þar á meðal Ítalíu, Þýskalandi, Austurríki – verða að fara í fimmtán daga sóttkví. Bann á komu útlendinga tekur gildi á miðnætti aðfararnótt mánudagsins.

Alls hafa 117 manns greinst með kórónuveirusmit í Tékklandi, en enginn dauðsföll hafa enn verið rakin til veirunnar í landinu.

Búið er að loka skólum og banna samkomur þar sem þrjátíu manns eða fleiri koma saman. Veitingastaðir verða að loka klukkan 20 á kvöldin frá á með deginum í dag.

Babis hefur beint því til tékknesks almennings að hamstra ekki matvöru þar sem ekki verði settar hömlur á sölu matvara.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×