Atvinnulíf

Sér fyrir sér góðan dag þar sem verkefnin leysast farsællega

Rakel Sveinsdóttir skrifar
Í kaffispjalli um helgar fáum við innsýn í líf og starf fólks sem vinnur í ólíkum störfum. Víðir Þór Þrastarson heilsu- og einkaþjálfari í World Class gefur án efa mörgum góðar hugmyndir um heilbrigðan lífstíl um leið og hann lýsir dæmigerðum vinnudegi hjá sér.
Í kaffispjalli um helgar fáum við innsýn í líf og starf fólks sem vinnur í ólíkum störfum. Víðir Þór Þrastarson heilsu- og einkaþjálfari í World Class gefur án efa mörgum góðar hugmyndir um heilbrigðan lífstíl um leið og hann lýsir dæmigerðum vinnudegi hjá sér. Vísir/Aðsent

Mitt í allri umræðu um kórónuveiru og faraldur tökum við kaffispjall helgarinnar með Víði Þór Þrastarsyni heilsu- og einkaþjálfara og fáum um leið innblástur um það hvernig við getum hugað betur að heilsu og vellíðan. Í því samhengi bendir Víðir Þór ekkert síður á jákvætt hugarfar og segir til dæmis mikinn mun á því að taka nokkrar mínútur í það á morgnana að kyrra hugann og sjá fyrir sér góðan dag þar sem öll verkefni leysast farsællega, í samanburði við það að hlaupa í símann og kíkja á samfélagsmiðlana. Það geti oft sett hausinn á fullt og dagurinn hefst í streitu.

Í kaffispjalli um helgar spyrjum við alltaf hvenær fólk vaknar á morgnana, hvað er það fyrsta sem það gerir þá og um það hvenær fólk fer að sofa. Við spyrjum líka um vinnuna, skipulagið og helstu verkefni.

Hvenær vaknar þú á morgnana?

„Ég vakna upp úr klukkan fimm á morgnana þar sem ég mæti til vinnu klukkan sex alla virka daga. Ég byrja daginn á hugleiðslu þar sem ég kyrra hugann um stund og set mér síðan ásetning fyrir daginn. Þar sé ég fyrir mér að dagurinn verði góður og að öll mín verkefni leysist farsællega.

Það er ótrúlegur munur fyrir mig að byrja daginn þannig, í stað þess að hlaupa beint í símann á samfélagsmiðlana því við það getur hausinn farið á fullt og dagurinn byrjað í streitu.

Í framhaldinu raða ég hollmeti í blandarann minn og mixa boozt. Græja svo nesti í framhaldinu fyrir daginn.

Mér finnst það mikilvægt að skipuleggja hvað ég borða og hvenær. Þá enda ég síður með lágan blóðsykur síðar um daginn þar sem líkaminn öskrar á orku og maður grípur það sem hendi er næst, því oftast nær er það ekki það hollasta.“

Víðir Þór segir daga þar sem við byrjum á því að hlaupa í síman og skoða samfélagsmiðlana geta byrjað sem stress daga.Vísir/Aðsent

Myndir þú segja að heilsa og hreyfing sé þín stærsta ástríða?

„Fyrir mér er heilsan það dýrmætasta sem við eigum. Ef heilsan er góð, bæði líkamlega og andlega, eru mestar líkur á að okkur líði vel og fyrir vikið gangi vel í öllu því sem við tökum okkur fyrir hendur.

Ég starfa sem heildrænn þjálfari og hjálpa fólki að uppfæra lífstílinn með það að leiðarljósi að gera hreyfingu sem hluta af daglegu lífi. Í bland við að uppistaðan í mataræðinu séu fersk, hrein og holl matvæli, og svo einnig að þjálfa upp jákvætt hugarfar.“

Í hvaða verkefnum ertu helst að vinna þessa dagana?

„Þessa dagana er ég að þjálfa á fullu í World Class Laugum, eins og undanfarin 15 ár. Einnig er í gangi hjá mér kennslulota en ég kenni íþróttanudd og teygjur við Heilsunuddbraut Fjölbrautaskólans við Ármúla. Enn fremur er ég í fjarnámi við háskóla í Bandaríkjunum þar sem ég er að mennta mig meira í heilsufræðinni, svo það er óhætt að segja að mér leiðist ekki þessa dagana.“

Hvernig skipuleggur þú þig í vinnu?

„Snjallsíminn fær smá tíma eftir morgunrútínuna en með honum held ég utan um bókaða tíma og hvað ég tek fyrir hjá hverjum skjólstæðing fyrir sig.“

Hvenær ferðu að sofa á kvöldin?

„Alla jafna fer svo ég svo að undirbúa svefninn upp úr klukkan níu á kvöldin. Tek seinni hugleiðslu dagsins, kíki aðeins í góða bók og slaka á eftir daginn.

Ég passa upp á að horfa hvorki á sjónvarp né vera í símanum í klukkutíma eða svo fyrir svefninn þar sem þessi raftæki gefa frá sér ljós sem geta haft áhrif á viss hormón í líkamanum og haft þannig neikvæð áhrif á svefninn.“

Með yfirliti yfir daginn sinn hefur Víðir Þór án efa gefið einhverjum lesendum nokkrar hugmyndir um hvað við getum gert til að efla heilsu og vellíðan. En er hann með einhvern boðskap fyrir okkur til að taka með okkur inn í helgina og vinnuvikuna framundan?

„Ef þú hefur ekki tíma fyrir heilsuna í dag, er óvíst að heilsan hafi tíma fyrir þig á morgun.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×