Körfubolti

Hlynur, Logi og Helgi Már náðu sama áfanga og Carter

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Meðlimir fjögurra áratuga klúbbsins á Íslandi.
Meðlimir fjögurra áratuga klúbbsins á Íslandi. vísir/bára

Hlynur Bæringsson, Logi Gunnarsson og Helgi Már Magnússon náðu í gær þeim merka áfanga að spila leik á Íslandi á fjórum mismunandi áratugum. Allir héldu þeir upp á áfangann með sigri.

Þeir fylgdu þar með í fótspor Vince Carter varð um helgina fyrsti leikmaðurinn í NBA-deildinni til að spila leik á fjórum mismunandi áratugum.Hlynur, Logi og Helgi spiluðu allir sinn fyrsta leik á Íslandi undir lok síðasta áratugar 20. aldarinnar. Logi er fæddur 1981 og þeir Hlynur og Helgi ári seinna.

Hlynur lék sína fyrstu leiki með Skallagrími tímabilið 1997-98. Sama tímabil lék Logi sína fyrstu leiki með Njarðvík og varð Íslandsmeistari með liðinu.

Helgi var á skýrslu í nokkrum leikjum með KR tímabilið 1998-99 en lék sínar fyrstu mínútur tímabilið 1999-2000. KR varð Íslandsmeistari vorið 2000 en Helgi var ekki á skýrslu í neinum leik í úrslitakeppninni.

Hlynur lék með Skallagrími til 2002 þegar hann fór til Snæfells. Hann lék í Hólminum til 2010, fyrir utan eitt tímabil þegar hann í herbúðum Aris Leeuwarden í Hollandi.

Eftir að Snæfell varð tvöfaldur meistari 2010 fór Hlynur til Sundsvall Dragons í Svíþjóð. Hann lék þar í sex ár, og varð einu sinni sænskur meistari, áður en hann fór til Stjörnunnar 2016.

Logi lék með Njarðvík til 2002. Eftir sex ár í atvinnumennsku sneri hann heim til Njarðvíkur tímabilið 2008-09. Logi lék svo erlendis til 2013 þegar hann kom aftur til Njarðvíkur þar sem hann hefur leikið síðan.

Helgi lék með Catawba háskólanum í Bandaríkjunum á árunum 2002-06 og var svo eitt ár í herbúðum BC Boncourt í Sviss. Hann lék með KR 2007-09 og varð Íslandsmeistari með liðinu 2009. Næstu þrjú árin lék hann svo í Svíþjóð áður en hann sneri heim í KR 2012. Hann hefur unnið fjölmarga titla með Vesturbæjarliðinu síðan þá.

Hlynur skoraði tólf stig og tók sjö fráköst þegar Stjarnan sigraði Þór Þ., 84-70, í gær. Logi skoraði þrjú stig í öruggum sigri Njarðvíkur á ÍR, 88-64, og Helgi var með 14 stig, níu fráköst og fjórar stoðsendingar þegar KR vann Grindavík, 91-94, eftir framlengingu.

Jakob Örn Sigurðarson nær sama áfanga og þeir Hlynur, Logi og Helgi þegar hann leikur sinn fyrsta leik á þessu ári. Jakob missti af leiknum gegn Grindavík í gær vegna meiðsla. Hann lék sinn fyrsta leik með KR tímabilið 1998-99.

Jakob fór í háskóla í Bandaríkjunum eftir að KR varð Íslandsmeistari 2000 og kom ekki aftur fyrr en tímabilið 2008-09 þegar hann varð aftur Íslandsmeistari. Jakob sneri svo aftur til KR fyrir þetta tímabil.

Jón Arnór Stefánsson var nálægt því að ná sama áfanga og Hlynur, Logi og Helgi að spila á fjórum áratugum. Hann lék sinn fyrsta leik fyrir KR í úrslitakeppninni 28. mars 2000. Hann lék með KR til 2002 og kom svo heim tímabilið 2008-09 líkt og Jakob.

Jón Arnór kom svo aftur til KR 2016 og hefur þrisvar sinnum orðið Íslandsmeistari með liðinu síðan þá. Jón Arnór, sem hefur glímt við meiðsli, var á skýrslu gegn Grindavík í gær en kom ekkert við sögu.


Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.