Handbolti

Dregið í undankeppni HM 2009 á morgun

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Landsliðsmenn fagna sætum sigri á Serbum í undankepppni EM 2008.
Landsliðsmenn fagna sætum sigri á Serbum í undankepppni EM 2008.

Ísland verður í efri styrkleikaflokki þegar dregið verður í undankeppni HM 2009 í Lillehammer í Noregi á morgun.

Það verða fyrstu verkefni nýs landsliðsþjálfara að koma liðinu í gegnum tvær undankeppnir í vor - fyrir HM 2009 í Króatíu og Ólympíuleikana í Peking sem fara fram í sumar.

Undankeppnirnar fara fram með skömmu millibili. Ísland spilar í undankeppni ÓL síðustu helgina í maí og í undankeppni HM aðra og þriðju helgina í júní.

Á morgun verður dregið í undankeppni HM og eins og síðustu ár verður Ísland í efri styrkleikaflokkinum.

Í síðustu undankeppni stórmóts drógst íslenska liðið gegn Serbíu og þar áður gegn Svíþjóð. Bæði lið eru geysilega sterk og var það því mikið afrek að vinna í bæði skiptin.

Ísland gæti reyndar dregist gegn Serbíu í ár en ekki gegn Svíum. Ísland og Svíþjóð munu hins vegar mætast í undankeppni Ólympíuleikanna í Póllandi í vor.

Fimm lið hafa þegar tryggt sér þátttökurétt á HM í Króatíu. Það eru gestgjafar Króatíu, heimsmeistara Þýskalands og Danmörk, Frakkland og Svíþjóð. 

Liðin í efri styrkleikaflokkinum eru þau níu lið sem náði besta árangrinum á EM í Noregi fyrir utan þau lið sem hafa tryggt sér beinan þátttökurétt á HM í Króatíu.

Tvö neðstu liðin á EM í Noregi auk þeirra sjö sem komust í gegnum forkeppnina eru í neðri styrkleikaflokkinum.

Efri styrkleikaflokkur:

Noregur

Pólland

Ungverjaland

Spánn

Slóvenía

Ísland

Svartfjallaland

Rússland

Tékkland

Neðri styrkleikaflokkur:



Hvíta-Rússland

Slóvakía

Bosnía

Grikkland

Makedónía

Rúmenía

Serbía

Sviss

Úkraína




Fleiri fréttir

Sjá meira


×