Handbolti

Króatar lögðu Evrópumeistarana

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Bertrand Gille tekur hér á Ivano Balic í leiknum í dag.
Bertrand Gille tekur hér á Ivano Balic í leiknum í dag. Nordic Photos / AFP

Króatía komst í dag í úrslit EM í handbolta eftir að hafa lagt Evrópumeistara Frakka í æsispennandi leik, 24-23.

Ivano Balic og Blazenko Lackovic voru hetjur Króata en þeir skoruðu síðustu tvö mörk leiksins og tryggðu þar með sigurinn.

Frakkar héldu í sókn þegar tæp mínúta var eftir að leiknum en geysisterk vörn Króata stóðst álagið og Frökkum tókst ekki að skora.

Króatar voru með undirtökin í leiknum lengst af og voru með tveggja marka forystu í hálfleik, 11-9.

Forysta Króata varð svo þrjú mörk í stöðunni 13-10 en þá fóru Frakkarnir á flug og náðu forystunni þegar tæpar 43 mínútur voru liðnar af leiknum. Staðan var þá 16-15 fyrir Frakka en alls skiptust liðin fjórum sinnum á því að hafa forystuna í leiknum.

Króatar komust í 21-19 en þá komu þrjú frönsk mörk í röð. Króatar jöfnuðu en Frakkar náðu aftur forystunni, 23-22. Þá komu hins vegar tvö króatísk mörk í röð og urðu þau síðustu mörk leiksins, sem fyrr segir.

Peter Metlicic skoraði flest mörk Króata í leiknum eða sex talsins en Balic kom næstur með fimm.

Daniel Narcisse átti stórleik og skoraði sjö mörk fyrir Frakka sem dugði engu að síður ekki til. Luc Abalo skoraði einnig sjö mörk og Nikola Karabatic fimm.

Króatísku markverðirnir Somic og Alilovic vörðu samtals níu skot í leiknum en Thierry Omeyer tíu fyrir Frakka.

Króatar mæta annað hvort Þjóðverjum eða Dönum í úrslitum en síðari undanúrslitaviðureign dagsins hefst klukkan 17.00.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×