Handbolti

Danir lögðu heimsmeistarana

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Tveir bestu menn leiksins í dag - Lars Christiansen og Johannes Bitter.
Tveir bestu menn leiksins í dag - Lars Christiansen og Johannes Bitter. Nordic Photos / AFP

Danmörk komst í dag í úrslit EM í handbolta í Noregi eftir að hafa lagt heimsmeistara Þýskalands í æsispennandi viðureign í undanúrslitunum.

Það var hornamaðurinn Lars Christiansen sem tryggði Dönum sigurinn, 26-25, með marki úr vítaspyrnu þegar þrjár sekúndur voru til leiksloka.

Danir voru reyndar með tveggja marka forystu þegar tvær mínútur voru til leiksloka, 25-23. En Michael Kraus jafnaði metin fyrir Þjóðverja þegar 22 sekúndur voru eftir.

En í blálokin náðu Danir að fiska vítakast og stóðst vítaskyttan Christiansen pressuna enda ein besta vítaskytta heims.

Danir skoruðu ekki mark á tíu mínútna kafla í fyrri hálfleik og á þeim tíma skoruðu Þjóðverjar sjö mörk í röð og komust í 12-7.

Staðan í hálfleik var 13-10 fyrir Þjóðverja og eftir tíu mínútna leik í síðari hálfleik voru Danir búnir að jafna metin, 16-16.

Danir voru svo með undirtökin síðasta stundarfjórðunginn en lokamínúturnar voru æsispennandi sem fyrr segir.

Christiansen var markahæsti leikmaður Dana með sex mörk og Michael Knudsen kom næstur með fjögur.

Hjá Þjóðverjum var Florian Kehrmann markahæstur með sex mörk og þeir Holger Glandorf og Markus Baur skoruðu fjögur mörk hver.

Johannes Bitter fór á kostum í fyrri hálfleik og varði alls átján skot í leiknum. Kasper Hvidt varði fimmtán skot fyrir Dani.

Á morgun mætast því Króatía og Danmörk í úrslitunum en Evrópumeistarar Frakka og heimsmeistarar Þjóðverja í leik um bronsið.

Króatar og Danir mættust í milliriðlakeppninni og unnu Danir þá tíu marka sigur, 30-20.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×