Erlent

Meint fórnarlamb Spacey neitaði að bera vitni

Kjartan Kjartansson skrifar
Spacey lýsti sig saklausan af því að hafa áreitt átján ára gamlan karlmann í Nantucket.
Spacey lýsti sig saklausan af því að hafa áreitt átján ára gamlan karlmann í Nantucket. Vísir/EPA

Saksóknarar í Massachusetts í Bandaríkjunum hafa fellt niður ákæru á hendur leikaranum Kevin Spacey sem var sakaður um að hafa áreitt átján ára gamlan karlmann á öldurhúsi árið 2016. Meint fórnarlamb Spacey neitaði að bera vitni í málinu.



Spacey hafði lýst sig saklausan af ásökununum og sökuðu lögmenn hans unga manninn um að hafa eytt smáskilaboðum sem þeir fullyrtu að hefðu hjálpað málsvörn leikarans, að því er segir í frétt Reuters.



Ungi maðurinn sagði lögreglu upphaflega að Spacey hefði keypt handa honum áfengi á bar í Nantucket í júlí árið 2016. Leikarinn hafi svo þuklað á unga manninum sem var þá átján ára.



Hann kærði Spacey í júní en dró kæruna til baka í byrjun júlí áður en taka átti fyrir atriði sem tengdust síma hans. Lögmaður hans sagði að maðurinn fyndi ekki símann þegar honum var skipað að afhenda lögmönnum Spacey hann.



Nýtti ungi maðurinn sér stjórnarskrárvarinn rétt sinn til að bendla sjálfan sig ekki við glæp þegar lögmenn Spacey spurðu hann hvort hann hefði eytt smáskilaboðum af símanum.



Spacey var fyrst sakaður um kynferðislegt misferli í október árið 2017. Þá sakaði leikarinn Anthony Rapp hann um að hafa reynt að draga sig á tálar þegar hann var fjórtán ára gamall fyrir um þrjátíu árum. Spacey var í kjölfarið rekinn úr Netflix-þáttaröðinni „Spilaborginni“.


Tengdar fréttir

Spacey segist saklaus

Leikarinn Kevin Spacey lýsti yfir sakleysi sínu í dómsal í dag þar sem hann mætti vegna ákæru fyrir kynferðisbrot gegn táningi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×