Umfjöllun og viðtöl: Fram - Valur 24-19 | Fram sigraði í uppgjöri toppliðanna

Sæbjörn Steinke skrifar
Lovísa Thompson sækir að vörn Fram.
Lovísa Thompson sækir að vörn Fram. vísir/bára
Fram lagði Val að velli í uppgjöri toppliðanna. Leikið var í Safamýrinni, Framhúsi, og sigruðu heimakonur með fimm mörkum, 24-19. Fram fer því í jólafríið með þriggja stiga forskot á toppi deildarinnar. Liðið náði einnig fram hefndum því Valur sigraði fyrri leik liðanna í október.

Karen Knútsdóttir var langatkvæðamest hjá Fram, níu mörk skoruð, þar af þrjú mörk úr þremur vítaskotum. Steinunn Björnsdóttir og Þórey Rósa Stefánsdóttir voru saman næstmarkahæstar, báðar með fjögur mörk skoruð. Hafdís Renötudóttir varði 14 skot í markinu, þar af eitt vítaskot, 48% markvarsla hjá Hafdísi.

Hjá Val var Sandra Erlingsdóttir með fimm mörk skoruð, þar af þrjú úr vítum. Ásdís Þór Ágústsdóttir var næstmarkahæst með fjögur mörk en þurfti þrettán skot til að skora þau mörk. Íris Björk varði sextán skot í marki Vals, 41% markvarsla.

Leikurinn fór ansi rólega af stað og kom fyrsta markið ekki fyrr en á fjórðu mínútu leiksins. Í stöðunni 2-2 skoraði Fram næstu fjögur mörk leiksins og Ágúst, þjálfari Vals, tók leikhlé. Valur skoraði næstu fjögur mörk leiksins og jafnaði leikinn á ný. Fram lenti aldrei undir í leiknum og leiddi með einu marki í leikhléi.

Hjá Val lék Lovísa Thompson til að byrja með en fór af velli í fyrri hálfleik og kom ekkert við sögu í seinni hálfleiknum. Fram skoraði fyrstu þrjú mörk seinni hálfleiksins og aftur þurfti Ágúst að taka leikhlé. Valur náði að minnka muninn minnst niður í tvö mörk eftir þetta og Fram með góð tök á leiknum.

Munurinn varð mestur sjö mörk, í stöðuni 23-16 og 24-17. Sandra skoraði síðustu tvö mörk leiksins og minnkaði muninn niður í fimm mörk undir lok leiks, þar við sat og sætur sigur Fram staðreynd.

Af hverju vann Fram leikinn?

Leikur Fram var einhvern veginn heilsteyptari en leikur Vals. Færanýtingin var betri sóknarlega og vörn Fram gífurlega sterk, sérstaklega þegar möguleikum Vals fækkaði vegna meiðsla Lovísu. Hafdís varði vel í markinu og leikstjórn Karenar var flott. 

Valskonur klikkuðu of oft á góðum færum í leiknum eins og Ágúst kom inn á í viðtali eftir leik.

Hverjar stóðu upp úr?

Hafdís Renötudóttir var frábær í marki Fram og varði 14 skot af þeim 29 sem á hana komu. Hún varði oft úr góðum færum gestanna og var stóð ástæða þess að Valur komst aldrei yfir í leiknum. Karen lék mjög vel sóknarlega og tók af skarið þegar á þurfti að halda. Steinunn var þá frábær varnarlega og sókarnar skoraði hún fjögur mörk úr fjórum skotum.

Hjá Val var Sandra líflegust og líklegust sóknarlega og Íris Björk varði vel í markinu, lítið við hana að sakast.

Hvað gekk illa?

Flest allt gekk upp hjá Fram í dag, sérstaklega í seinni hálfleik. Það sem gekk illa nær allan leikinn var sóknarleikur Vals. Mýmörg skot fóru forgörðum, mörg fóru framhjá markinu og Fram-vörnin varði einnig nokkur skot. Hafdís sá um að klukka tæplega helming þeirra skota sem komust á markið.

Hvað gerist næst?

Næst á dagskrá er jólafrí, þetta var lokaleikur liðanna í deildinni fyrri jól. Fram mætir Stjörnunn í Garðabæ þann 18. janúar og Valur fær KA/Þór í heimsókn sama dag.

Karen Knútsdóttir: Náðum að refsa fyrir þeirra mistök í seinni hálfleik„Mikil ánægja, gott að fara svona í jólafrí. Ég er mjög ánægð með allar stelpurnar í liðinu,“ sagði Karen Knútsdóttir, leikmaður Fram, eftir leik.

,,Allar lögðum við okkur 100% og Hafdís alltaf flott í markinu.“

Hvað var það helsta sem Karen telur að hafi tryggt Fram sigur í dag?

„Við höfðum meira á tanknum í lokin, náðum að rúlla aðeins á hópnum í fyrri hálfleik og þær misstu mikið með Lovísu þegar hún fór af velli. Það voru mikið af mistökum í þessum leik, við náðum að fækka þeim aðeins í seinni hálfleik og náðum að refsa fyrir þeirra mistök. Við fáum þessi hraðaupphlaup sem við nærumst á.“

Stefnan sett á titilinn?

„Já að sjálfsögðu, mjög gott fyrir okkur að vera á toppnum og ná að hefna fyrir tapið fyrr í vetur. Deildin er bara hálfnuð, það er fullt eftir,“ sagði Karen að lokum.

Stefán Arnarson: Sóknarlega vorum við betri en í fyrri leiknum„Ég er mjög ánægður með að vinna, við stefndum á að vera í efsta sætinu í Olís- og Grill-deildinni fyrir áramót og það er að takast,“ sagði Stefán Arnarson, þjálfari Fram, eftir leik.

„Munurinn á þessum leik og leiknum gegn Val í vetur var að við spiluðum mun betri sókn í dag. Markvarslan var góð eins og í þeim leik en sóknarleikurinn er ástæðan fyrir sigrinum.“

Hvernig fór Fram að því að slíta Val frá sér í seinni hálfleiknum?

„Við spiluðum mjög góða vörn fyrstu tíu mínúturnar, þegar þær fengu færi þá varði Hafdís. Í kjölfarið fengum við ódýr mörk.“

„Við stefnum á að vinna deildina eins og flest lið, það er okkar eina markmið,“ sagði Stefán að lokum.

Sandra Erlingsdóttir: Brotnum niður í seinni hálfleik„Þetta er náttúrulega ótrúlega svekkjandi, við ætluðum okkur ekki að tapa þessum leik,“ sagði Sandra Erlingsdóttir, leikmaður Vals, í viðtali eftir leik.

„Þetta var harður og hraður leikur, jafnt í hálfleik en ég hugsa að það hafi verið 28 skotklikkin sem fóru með leikinn.“

Hvað gerist í seinni hálfleiknum – af hveru komst Fram í góða forystu?

„Ég held að þær hafi skorað úr einu- tveimur hraðaupphlaupum og við brotnum strax niður eftir að þær komust yfir, þegar korter var eftir vorum við að tapa með þrem en samt var eins og leikurinn væri tapaður. Það vantaði smá karakter í liðið að halda áfram.“

Sandra sagði að lokum að munurinn á þessum leik og sigrinum á Fram fyrr í vetur vera að í fyrri leiknum hafi Valur verið með yfirhöndina í öllum leiknum sem gerði leikmenn öruggari. Hún nefndi að Lovísa Thomspon hafi verið heil í þeim leik og að liðið hafi ekki klikkað á 28 skotum eins og í dag.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira